149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:57]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa tekið þátt í umræðunni. Mig langar að fara yfir nokkur þau atriði sem hér hafa komið fram.

Í fyrsta lagi var gerð athugasemd við það að ekki fylgdi kostnaðarmat og raunar rætt í sömu andrá að hér væri frumvarp á ferð. Hér er auðvitað ekki um frumvarp að ræða heldur þingsályktunartillögu. Ég hlýt að leiðrétta það. Þeim fylgir almennt ekki kostnaðarmat. Þess vegna nýtti ég tækifærið í minni ræðu, sem hv. þingmenn hafa væntanlega hlustað á, og gerði grein fyrir því að kostnaður við uppskiptingu væri áætlaður um 70 millj. kr., en tók það þó fram að ég ætti von á frekari kostnaðarauka, annars vegar vegna flutnings jafnréttismála yfir í forsætisráðuneytið þar sem ég hef í hyggju að setja á laggirnar skrifstofu jafnréttismála sem ekki hefur verið til staðar í félagsmálaráðuneytinu, hins vegar vegna þess að ég tel og ríkisstjórnin telur að við þurfum að styðja við stjórnsýslu þessara mikilvægu málaflokka sem nema meira en helmingi ríkisútgjalda. Þarna eru gríðarlega stórir póstar undir þar sem skiptir máli að við styðjum betur við stjórnsýsluna.

Síðan vil ég aðeins nefna stóra nafnamálið. Margt hefur flogið í gegnum minn huga hér og ég veit að ég hef verið beðin um að grínast ekki í embætti mínu sem forsætisráðherra, en freistingin er of mikil núna af því að ég hef stundum haft það fyrir sið að kalla mig hreinlega þann ráðherra eftir því verkefni sem ég er að sinna á hverjum tíma. Þannig hét ég mennta- og menningarmálaráðherra þegar ég gegndi því embætti en kallaði mig íþróttamálaráðherra þegar ég sinnti íþróttunum eða rannsókna- og vísindaráðherra þegar ég var að sinna því. Núna kalla ég mig bara fundarstjóra ríkisins þegar þannig liggur á. Það er eitt hvernig við tölum um þetta í talmáli, getum við sagt, óformlegu talmáli, en hins vegar hlýt ég að nefna að það er löng hefð fyrir því að félagsmálaráðherra heiti eitthvað annað en eingöngu félagsmálaráðherra. Hann hét félags- og tryggingamálaráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra. Þessi tillaga um félags- og barnamálaráðherra sýnir þá pólitísku áherslu sem hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir nefndi. Ég veit að hv. þingmenn sem hér töluðu, Ólafur Ísleifsson og vafalaust Páll Magnússon líka, leggja líka áherslu á það. En auðvitað er þetta smekksatriði.

Við erum með langa hefð fyrir því að í nöfn ráðherra koma oft tiltekin pólitísk áhersluatriði. Þetta er gríðarlega algengt á Norðurlöndum, til að mynda í Danmörku núna erum við einmitt með barna- og félagsmálaráðherra. En það er breytilegt milli ríkisstjórna. Þetta er það fyrirkomulag sem ég nefndi áðan þar sem framkvæmdarvaldið hefur töluvert frjálsar hendur um það hvernig það skipar sínum málum niður, lyftir tilteknum pólitískum viðfangsefnum, vill setja húsnæðismál í öndvegi, börn í öndvegi. Það er hefðin þar og má segja kannski að það endurspeglist í þessu. En ég hlusta að sjálfsögðu líka eftir þeim sjónarmiðum sem koma fram um að einfaldleikinn sé alltaf bestur í titlum. Þetta er umræða sem ég vænti að fari fram innan nefndarinnar.

Ég vil síðan segja það út af ágætri ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar sem var vægast sagt fróðleg myndi ég segja og skemmtileg áheyrnar, og vil minna á að þessum flutningi fylgir auðvitað byggingarreglugerðin sem hefur einmitt verið töluvert rædd í kringum mótun húsnæðisstefnu. Það er auðvitað ástæðan fyrir tillögunni um þennan tilflutning, þ.e. að með flutningi Mannvirkjastofnunar fylgir líka sú reglugerð sem snýst m.a. um það hvaða kröfur við gerum til húsnæðis. Það flaug nú í gegnum huga minn meðan hv. þm. Birgir Þórarinsson ræddi þessi mál að auðvitað varða brunavarnir ýmis fleiri ráðuneyti. Mér varð hugsað til almannavarnaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins sömuleiðis.

Þá kem ég kannski að stóra málinu sem svo margir hv. þingmenn hafa nefnt hér um mikilvægi samvinnu ráðuneyta. Þar vil ég taka hjartanlega undir með öllum þeim hv. þingmönnum sem hafa sagt: Við hljótum að gera kröfu um það í samhentri stjórnsýslu í nútímanum — nú, það er bara búið að greiða atkvæði um þetta, ansi vel af sér vikið. [Hlátur í þingsal.] Ég þakka virðulegum forseta. Mér fannst þetta mjög góð og fljót afgreiðsla.

Auðvitað skiptir máli í samhentri stjórnsýslu að ráðuneytin vinni vel saman. Ég get rifjað upp nokkur dæmi um það. Sem menntamálaráðherra þurfti ég að vinna töluvert með heilbrigðisráðherra á þeim tíma vegna heilsueflingar í skólum sem er auðvitað gríðarlega stórt forvarnamál og það sparar kostnað í heilbrigðiskerfinu til lengri tíma þegar við innleiðum það að heilsuefling sé hluti af daglegu starfi framhaldsskólanna. Annað dæmi var samstarf með félagsmálaráðuneytinu um að tryggja að þeir sem væru á atvinnuleysisskrá gætu sótt nám í framhaldsskóla án þess að fara af bótum. Þetta er einmitt það sem við eigum að vera að vinna að alltaf, með öll ráðuneyti. Menntamálaráðherra og nýsköpunarráðherra, þeir þurfa að vinna vel saman. Forsætisráðherra þarf að geta unnið með öllum. Alltaf. Ég veit eins og ég sagði hér áðan að það eru oft óþarflega háir múrar á milli ráðuneyta. Þingið á að gera kröfu til þess að ráðuneyti vinni saman eins og smurð vél og þar held ég ekki að skipti öllu hvort það eru tveir ráðherrar í sama ráðuneyti eða ekki, heldur að þannig sé hugarfarið og viðhorfið sem við mætum alls staðar í stjórnsýslunni.

Af því að hér var rætt um atkvæðaskýringar og nefndarálit þingmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þá vil ég nefna það að ég fór yfir kostnaðinn við þetta í minni ræðu sem var einmitt gagnrýnt í nefndarálitinu sem hér var vísað til. Ég vil líka benda á að þá var verið að fjölga ráðherrum sérstaklega. Það er ekki raunin hér. Hér er verið að skipta upp en ekki fjölga ráðherrum. Markmiðin með þessu eru eins og ég fór hér yfir fyrst og fremst fagleg í málaflokkum sem eru ekki aðeins fyrirferðarmiklir í útgjaldaramma okkar heldur líka mjög mikilvægir málaflokkar sem eiga það skilið að mínu viti að við hlúum betur að þeim í stjórnsýslunni, styðjum betur við hana og tryggjum þannig faglegri stefnu og sýn til lengri tíma.