149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

umboðsmaður barna.

156. mál
[16:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir frumvarpið og ræðuna. Ég tek undir með henni, ég held að málið sé mjög mikilvægt og sem einn af talsmönnum barna á þingi fagna ég frumvarpinu og tækifærinu til að ræða þau mál frekar. Ég held að okkur væri öllum hollt að ræða meira málefni barna á þingi og setja upp barnagleraugun, eins og þeir gera sem eru talsmenn barna, umboðsmaður barna, UNICEF og Barnaheill, þegar við fjöllum um ýmis frumvörp og mál, svipað og við tölum um jafnréttisgleraugu.

Ég fagna frumvarpinu og vænti þess að nefndin fari vel yfir málið og kalli eftir umsögnum um það. Ég ætla ekki að úttala mig um það hvort frumvarpið sé fullkomið að öllu leyti eða hvort eitthvað þurfi að bæta í því en hugmyndafræðin er mjög góð. Hugmyndin um barnaþing finnst mér einstaklega áhugaverð. Ég verð að segja að mér finnst líka spurning hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar um það hvort börnin fái að nota þennan sal einkar áhugaverð. Í ljósi þess að ég sit í hv. forsætisnefnd held ég að full ástæða sé til að ræða það sem og þann möguleika að við opnum þetta fallega hús og þá mikilvægu stofnun sem Alþingi er meira fyrir almenning. Ég hef haft tækifæri til að heimsækja mörg þjóðþing á ferðum mín sem þingmaður og fengið að ganga þar um þingsalina og sjá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig, en hér höfum við haft þá hefð að þingsalurinn er almennt lokaður gestum, fólk má aðeins standa í hliðarherbergjum og horfa inn í þingsalinn. Ég held að vel færi á því að við opnum aðeins frekar þá starfsemi sem á sér stað hér og að það væru börnin sem fengju tækifæri til þess á barnaþingi, ef það skyldi henta.

Mig langar í því samhengi að ræða það sem við fórum svolítið yfir á síðasta þingi, kosningaþátttöku ungs fólks og hvort færa ætti kosningaaldurinn niður, sérstaklega varðandi sveitarstjórnir. Við eyddum töluverðum tíma í að ræða það og öll erum við sammála um að við viljum ýta undir kosningavitund og þátttöku ungs fólks. Það að halda barnaþing og ræða oftar um málefni barna held ég að sé mjög góð leið þegar kemur að því, því að það er svo mikilvægt að ýta undir lýðræðisvitundina. Ég þekki það sjálf eftir að hafa starfað lengi í sveitarstjórn að fáir fundir voru jafn áhugaverðir og þegar við áttum fund með ungmennaráðum sveitarfélagsins. Oft komu þar fram virkilega áhugaverðar ábendingar og sjónarmið sem okkur sem eldri erum hefði ekki dottið í hug nema með aðstoð unga fólksins.

Mig langar að þakka kærlega fyrir frumvarpið. Ég held að áhugavert verði að fá að fylgja því úr hlaði. Ég vil líka hvetja okkur sem gegnum starfi talsmanna barna til að taka frumvarpið sérstaklega fyrir og fara betur yfir þau mál sem hér er fjallað um varðandi barnaþingið o.fl.