149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[16:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og fyrir að velta því upp hvort við séum að taka rétt skref varðandi að efla læsi í landinu. Ég tel svo sannarlega vera vegna þess að ef við lítum á umfangið á stuðningnum er það í kringum 17% af veltu á bókamarkaði, í bókaútgáfu. Það er þannig innspýting í geirann að hún mun að sjálfsögðu líka koma vel við rithöfunda og án þeirra verða ekki til neinar bækur. Við erum að gera svipaða hluti í kvikmyndaframleiðslu í landinu og í hljóðritun, eins og kom fram í framsögu minni. Það form hefur reynst mjög vel. Það var líka tími til kominn að við færum í aðgerðir af slíkum toga. Við erum fyrst og síðast bókaþjóð og það hefur verið sorglegt að horfa fram á þróunina sem hefur átt sér stað, hvernig veltan hefur minnkað. Við leggjum auðvitað mikla áherslu á að allt sem við gerum skili árangri. Ég er sannfærð um að þessi aðgerð, á þennan hátt, muni gera það.