149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að reifa málið og nálgun sína á það. Ég vil í fyrsta lagi segja að alveg ljóst er að endurgreiðsla mun hvetja til aukinnar útgáfu á prenti og/eða rafrænum miðlum. Við horfum til að mynda á að unga fólkið okkar, unglingarnir, kvartar sáran undan því að það vanti bækur á íslensku fyrir það. Ég sótti málþing í Hagaskóla fyrr í vetur sem var helsta ástæða þess að við settum á laggirnar nýjan styrktarflokk þar sem við einblínum á bækur fyrir börn og ungt fólk.

Í öðru lagi er náttúrlega mjög líklegt að framboð og fjölbreytni fyrir íslenska lesendur aukist vegna þess að við erum búin að setja inn fjárhagslegan hvata með endurgreiðslunni. Eitt af því sem við höfum heyrt er að framboð og fjölbreytileiki hafi dregist saman. Við teljum að þetta sé mjög góð tilraun til þess að auka framboðið.

Í þriðja lagi gefur slíkur stuðningur meira svigrúm til að auka fjölbreytileika og mun að mínu mati hafa jákvæða keðjuverkun í för með sér. Þegar komið er fjölbreyttara efni svörum við eftirspurn ólíkra hópa betur sem ég tel að muni auka áhugann á því að lesa, t.d. þegar við lítum á unga fólkið okkar. Ég hef djúpa sannfæringu fyrir því að þetta sé a.m.k. mjög heiðarleg tilraun til að auka og dýpka læsi á Íslandi.