149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:06]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er annað atriði sem mig langar til að minnast á sem er kostnaður við breytingarnar. Í mati á áhrifum segir að sé miðað við fjölda ársreikninga og skattframtöl í bókaútgáfu megi áætla að kostnaður ríkissjóðs verði á bilinu 300–400 milljónir. Ég efast ekki um að það sé allt saman satt og rétt en mig langar að spyrja: Er það miðað við núverandi útgáfustig, ef má taka þannig til orða, eða er gert ráð fyrir umtalsverðri aukningu? Ég skil ekki annað á máli hæstv. ráðherra en að hún reikni með stóraukinni útgáfu á grundvelli breytinganna. Þá er spurning hvort sú tala er miðuð við þá miklu auknu útgáfu.

Í öðru lagi: Er fyrir því séð í fjárlögum og fjármálaáætlun næstu ára að mæta kostnaði sem væri þá a.m.k. 300 milljónir en miðað við bjartsýni hæstv. ráðherra, sem ég vona að sé á rökum reist, (Forseti hringir.) gæti það orðið umtalsvert hærri fjárhæð?