149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:09]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku frá mennta- og menningarmálaráðherra. Ég vil byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með þennan áfanga og framlagningu þessa frumvarps. Þetta er jákvætt og gott skref sem við stígum hér.

En eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er markmið laganna að efla útgáfu bóka á íslenskri tungu í ljósi mikilvægis hennar fyrir vernd íslenskunnar og eflingu læsis. Til að ná því markmiði er gert ráð fyrir að heimilt sé að endurgreiða hluta þess kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt atriði í þessu öllu saman. Það er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að efla íslenska tungu og styrkja íslenska bókaútgáfu.

Mig langar, þessu máli til stuðnings, að lesa upp úr bréfi — þættinum barst sem sagt bréf — sem er yfirlýsing frá stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda, með leyfi forseta:

„Stjórnarfrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, um stuðning við bókaútgáfu felur í sér mikilvæg tíðindi fyrir íslenska bókmenningu. Með því er staðfestur sá vilji ráðherra og stjórnvalda að sporna gegn þeim samdrætti sem orðið hefur á sölu íslenskra bóka á liðnum árum og auka lestur þjóðarinnar. Vandi bókaútgáfunnar er reifaður ítarlega og boðið upp á lausn sem er líkleg til þess að gagnast þeim sem með einum eða öðrum hætti tengjast útgáfu íslenskra bóka.

Í frumvarpinu er byggt á reynslu af sama fyrirkomulagi fyrir íslenska kvikmyndagerð og tónlist. Má þar vísa í úttekt sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði árið 2015 á jákvæðum hagrænum áhrifum endurgreiðslufyrirkomulags á kvikmyndagerð á Íslandi. Aðstandendur kvikmyndagerðar geta einnig vitnað um hversu virðisaukandi áhrif endurgreiðslufyrirkomulagið hefur haft á þá sem starfa í greininni. Stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda telur að jákvæð áhrif muni einnig skila sér með sambærilegum hætti til þeirra sem starfa við bókaútgáfu.

Þetta er fagnaðarefni fyrir þá sem starfa að útgáfu íslenskra bóka og ekki síður lesendur, sem þarfnast fjölbreyttrar og kraftmikillar útgáfu árið um kring. Stjórnvöld staðfesta með frumvarpinu menningarlegt mikilvægi bókaútgáfu, meðal annars við ræktun og verndun íslenskunnar. Við teljum aðgerðina líklega til þess að skila góðum árangri, íslenskri þjóð og tungu til heilla.

Samþykkt á stjórnarfundi þann 3. október 2018.“

Þetta les ég hér upp þessu máli til stuðnings og þakka fyrir þessa stuðningsyfirlýsingu. Það er mjög mikilvægt að nú eykst svigrúm íslenskrar bókaútgáfu til muna. Í því samhengi ætti okkur að vera fært að auka enn lestur á íslensku máli og auka lestur ungmenna. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur. Við þurfum að taka okkur á í því. Þetta mun falla að fleiri verkefnum á því sviði og þeirri vinnu sem þar er í gangi.

Enn og aftur vil ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með þennan dag.