149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:44]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra að samtal við rithöfunda hafi átt sér stað. Ég vænti þess að rithöfundar komi líka fyrir nefndina sem ég á sæti í og að ég fái að heyra þeirra sjónarmið. Ég hlakka til þess.

Varðandi stjórnina og hvernig hún er skipuð efast ég ekki um að hæstv. ráðherra muni skipa hana faglega. Ég nefndi þetta eingöngu vegna þess að við höfum söguna. Þó að það kunni að hljóma ótrúlega mun sá dagur renna upp að hæstv. ráðherra verður leystur af hólmi af einhverjum öðrum ráðherra og svo öðrum og enn öðrum. Hvað sem líður vangaveltum um tímarammann hef ég ástæðu til að ætla að þetta fyrirkomulag verði við lýði nokkuð lengi og þarna er kannski freistnivandi fyrir óprúttna stjórnmálamenn.