149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum þetta. Þetta er sama fyrirkomulag og við höfum haft á endurgreiðslum varðandi kvikmyndaframleiðendur. Það kann að vera ótrúlegt að einhverjir taki við en það ber að hafa hugfast að við viljum vera með þannig girðingar að alltaf sé ýtrustu fagmennsku gætt. Það er ofsalega mikilvægt að við náum að draga línu í sandinn núna. Það er auðvitað óskandi að við munum sjá aukningu og meiri fjölbreytileika í bókaútgáfu. Ég finn hreinlega að það er hugur í mönnum að þetta sé þannig aðgerð. Þetta er ansi umfangsmikið ef við miðum við veltuna sem er í kringum 2,4 milljarða. Þetta eru hugsanlega 17% af henni þannig að mörg tækifæri eru fólgin í þessu. Ég finn að þetta frumvarp nýtur velvildar hjá þjóðinni, ef ég má orða það þannig. Ég hef fengið mjög góðar og gagnlegar athugasemdir. Það er mjög brýnt að málið fari til nefndar og að við fáum frekari rýni. Svo vonast ég til þess að markmiðinu verði náð, þetta verði til þess fallið að við sjáum aukinn fjölbreytileika og náum að efla læsi og styrkja íslenska tungu.