149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:48]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að hreyfa við málinu. Þetta er auðvitað í stjórnarsamningnum, ef við köllum hann svo, en hún hefur sem sé bæði hreyft við því og lent því. Það er virðingarvert.

Við ræðum ívilnun til bókaforlaga. Við heyrðum um ánægju meðal bókaútgefenda út af því og annað væri skrýtið. Það segir þó það að þarna eru menn tilbúnir að taka á því, eins og sagt er. Tilgangurinn með frumvarpinu er að mæta hnignandi bóksölu og auðvitað eru margar ástæður fyrir henni. Ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að fara að fjölyrða um þær og reyna að greina mjög gáfulega frá þeim heldur ítreka að núna er um að ræða beina fjárhagsaðstoð til forlaga sem á að lækka útgáfukostnað. Í greinargerð með frumvarpinu stendur um c-lið 6. gr., með leyfi forseta:

„Lagt er til í c-lið að þóknun til höfundar sem bókaútgefandi greiðir vegna útgáfu bókar skuli falla undir endurgreiðsluhæfan kostnað samkvæmt ákvæði þessu. Um er að ræða þóknun bókaútgefanda til höfundar sem fellur til vegna útgáfu bókar fram að móttökudegi umsóknar um endurgreiðslu kostnaðar …“

Beinlínis er hvatt til þess að að einhverju leyti gangi endurgreiðslan til lækkunar þess kostnaðar sem bókaforlag hefur vegna launa til höfundar. Það væri skrýtið ef það skilaði sér svo ekki á einhvern máta til höfundar, þarna er opnað fyrir það.

Mig langar að tala svolítið persónulega sem rithöfundur vegna þess að ég hef langa reynslu. Ég hef staðið að útgáfu yfir 50 bóka, bæði fræðibóka, ef við getum kallað það svo, og fagurbókmennta. Ég hef unnið með sex forlögum, flestum þeim stóru sem hafa verið til hér — ég held að þau séu reyndar fleiri ef ég tel allt til — og rekið forlag með Ragnari Th. Sigurðssyni ljósmyndara og gefið út allmargar bækur þannig. Ég er ekki að gorta, ég er aðeins að leggja fram að ég hef þá reynslu og hún segir mér að það skref sem verið er að taka gæti verið mjög gagnlegt.

Það á sem sagt að styrkja útgáfu bóka í framleiðslu og vona þar með, eða búast við eða gera ráð fyrir, að salan aukist sem og lestur. Það er að sjálfsögðu eingöngu tilraun, a.m.k. að mínu mati. Við erum ekki búin að finna hina einu réttu lausn en þetta er góð tilraun. Ég tel að engin skotheld lausn sé til til að auka bóklestur og bókakaup, heldur binda menn vonir við þetta og ég geri það sömuleiðis.

Mig langar þó að koma að þeirri athugasemd, sem kannski varðar að einhverju leyti minnkandi bóklestur, að bókaverð er of hátt í krónum talið. Ég tala nú ekki um bækur sem er verið að selja útlendingum, þó að þær séu auðvitað ekki á íslensku, þar sem bókaverð er yfirleitt á allt öðrum skala í flestum löndum. Það er alveg burt séð frá virðisaukaskatti, krónutalan er einfaldlega mjög há. Hvort það er álagning einhvers staðar í ferlinu, við skulum segja hjá bóksölunum sjálfum, þetta eru lítil upplög, hár prentkostnaður o.s.frv., ætla ég ekki að fullyrða neitt um en bókaverð held ég að hafi hækkað miðað við meðaltímakaup með árunum.

Ég sagði að þetta væri tilraun en ég lít svo á að alltaf sé hægt að finna aðrar leiðir og prófa þær ef hún gefur sig út fyrir að ganga ekki upp.

Frú forseti. Mig langar aðeins að ræða hlut höfunda, því að þeir hafa verið nokkuð framarlega í umræðunni, og varpa fram spurningu. Það sem ég ætla að segja eru staðreyndir sem ég held að séu gott veganesti í umræðu yfir höfuð, hvort sem er um þetta frumvarp eða um bókmenntir á Íslandi almennt, og þær snerta kjör rithöfunda. Þau eru þannig, eins og kannski allir vita, að greitt er á hvert selt eintak. Grunnurinn er forlagsverð, heildsöluverð forlags til seljanda. Það tíðkast að þar sé veittur verulegur magnafsláttur ef seljendur taka mörg eintök í sölu og semja um það. Þetta eru aðallega kjötbúðir og kjörbúðir og aðrar slíkar fjölnota búðir og mönnum finnst oft mjög sérkennilegt að þær skuli leggja áherslu á bóksölu rétt fyrir jólin, en látum það vera. Af því forlagsverði fær höfundur venjulega 23%, sem er mjög há prósenta miðað við mörg önnur lönd. Það getur svo verið afsláttur af því ef bækur eru þess eðlis að mikill kostnaður er við myndir og ýmislegt sem fellur inn í framleiðsluna. Þá hækkar bókaverðið en prósenta til höfundar lækkar.

Svo er það sérkennilega við Ísland að bóksala er umboðssala að stórum hluta, þ.e. bóksalinn tekur svo og svo mörg eintök, selur það sem hann getur og svo gengur afgangurinn til baka. Þetta er ekki eins og strokleður og blýantar í bókaverslunum eða aðrar vörur í hinum fjölnota búðum heldur umboðssala sem leiðir svo til þess að uppgjör við höfunda fer fram í sumarbyrjun árið eftir almanaksárið sem salan fór fram. 2017 er gert upp í júní árið 2018. Sumir kalla það vaxtalaust lán til útgefenda. Ég ætla ekki að leggja mat á það en það má alla vega segja þetta séu mjög sérkennilegir viðskiptahættir.

Skoðum einhverjar tölur og förum í töfraeintakafjöldann, 1.000 seld eintök. Forlagsverð gæti legið á bilinu frá 2.000 kr., ef þetta er lítil bók, til 4.000 kr., ef þetta er dálítið vegleg bók. Ég tek einhverjar upphæðir. Ef menn nota prósenturnar sjá þeir að hlutur höfundarins er í kringum 500 kr. fyrir lægri töluna og kringum 1.000 kr. fyrir hærri töluna. Ef við margföldum það með 1.000 eintökum fær höfundurinn á bilinu 500.000 til 1 millj. kr. í laun fyrir hugsanlega margra mánaða vinnu, kannski margra ára.

Í sumum tilvikum eru upplögin náttúrlega miklu stærri, stærri hluti upplags selst og launin þá hærri, en það eru líka til dæmi um að góðar bækur séu með lægri sölutölur og þar eru upphæðirnar enn þá lægri. Sú mynd þarf að vera ljós öllum sem fjalla um þetta, ekki bara hlutur bókaútgefandans eða bóksalans eða hvaðeina, heldur líka þær andlegu mjólkurkýr sem skipta svo miklu máli í öllu því ferli, rithöfundarnir sjálfir.

Það beinir svo sjónum að kjörum rithöfunda yfir höfuð, sjóðsmálunum, hvernig hægt er að auka hlut höfunda í bóksölu, í bókmenntunum yfir höfuð, hvernig maður getur eflt umbun fyrir skrifin. Ég ætla ekki að koma með neinar hugmyndir að því. Ég tel einfaldlega að það sé mjög mikilvæg umræða sem þurfi að fara fram þó að hún tengist ekki akkúrat þeim vettvangi við að afgreiða þetta tiltekna frumvarp. Ég tek fram að ég er ákaflega jákvæður í garð frumvarpsins og vona að það gangi sína leið slétt og fellt.

Mig langar vegna orða hv. þm. Teits Björns Einarssonar að enda á því að taka fram að beinn stuðningur ríkisins við menningu er alkunnur. Eins er það auðvitað að menningarstarfsemi er ekki venjulegur atvinnurekstur eins og hér var fjallað um, að það væri eins og að reka rafmagnsviðgerðafyrirtæki. Þetta er ekki hagnaðardrifin starfsemi nema að ákaflega litlu leyti. Ef þetta væri venjulegur atvinnurekstur ættum við hvorki fjölsótt þjóðleikhús né stóra hljómsveit á heimsmælikvarða sem fyllir Hörpu af og til, sem er líka niðurgreitt fyrirbæri, munum það. Við ættum ekki einu sinni íslenskufræðinga úr háskóla, sem ekki væri niðurgreiddur.

Umræða um vafasöm ríkisframlög eða ríkisstuðning við menningarstarfsemi hefur heyrst í áratugi og hún verður æ sérkennilegri eftir því sem harðar er sótt að megintungu smáríkis og hefðbundinni menningarstarfsemi í þó blessunarlega opnum alþjóðlegum menningarheimi.

Ég læt þessu lokið.