149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka hæstv. ráðherra menntamála, menningarmála og bóka fyrir að koma fram með þetta frumvarp. Ég gæti talað lengi um bækur. Þær hafa fylgt mér frá því að ég man eftir mér. Ég byrjaði að lesa svo ungur að mér var kippt inn í skólann fyrir aldur því að ég vildi lesa fleiri bækur þar. Ég man ekki öðruvísi eftir mér en að fletta bókum. Ég hef lesið þær endalaust, ég hef skrifað þær, þýtt þær, lesið þær inn á hljóðbækur. Ég sofna ekki öðruvísi en að minnast við í það minnsta eina bók og oft þegar ég vakna teygi ég mig í sömu bók hafi hún verið nógu spennandi. Þetta eru ástmeyjar mínar, ég er hræddur við þær að einhverju leyti, bækur eru líf mitt. Það er eitthvað ótrúlegt við þau fyrirbæri, einhver tákn á fleti sem þú getur flett, þess vegna rifið og nagað, opnað, fundið lyktina af, og þarna er allt í einu heill heimur sem ég fæ í mínu tilfelli ekki út úr öðrum miðlum þó að ég sé mjög hrifinn af þeim líka.

Þess vegna er ég að mörgu leyti kannski vanhæfur í þessari umræðu. Ég veit það ekki en ég ætla samt að láta slag standa, virðulegur forseti, því að mér finnst gríðarlega mikilvægt að við gefum út bækur. Fyrir mér er mikilvægt að við skrifum bækur, styðjum við fólk sem skrifar bækur. Það er mikilvægt að við gefum út bækur og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að hægt sé að gefa út eins mikið af bókum og mögulegt er. Mér finnst mikilvægt að við lesum bækur og gerum það sem þarf og í okkar valdi stendur til að auka lestur á bókum.

En mér finnst líka mikilvægt að við gefum út bækur sem eru ekki sérstaklega mikið lesnar. Það var hressandi að heyra hina hreinu, tæru frjálshyggjuumræðu koma inn í bókaumræðuna áðan. Það er ágætt að minna sig stundum á að það er mikill meiningarmunur um ýmislegt í þessum sal. Það er allt gott og blessað. Fólk getur haft aðra skoðun á hlutum en ég, ég hef oft rangar skoðanir á hlutum en ekki í þessu tilfelli. [Hlátur í þingsal.] Ég vil að það sé tekið fram, virðulegi forseti, töfraheimur bókanna er slíkur að ég ætla ekki að beygja mig undir það að ég geti mögulega haft rangt fyrir mér þar.

Þetta er ekki einhver vara á markaði úr öllum tengslum við nokkuð annað, menningu, nefnd hefur verið sjálfsmynd, tungumálið, og mig langar að segja tilvist okkar allra. Ekki er hægt að fara eftir sömu reglum í því og við viljum að séu algildar í öðru, hvort sem það er íssala, pylsusala eða hvað. Ég styð allt sem eflir bókaútgáfu á Íslandi. Ég mun líka styðja allt og huga að því í framhaldi hvort gera þurfi meira, eins og hæstv. ráðherra hefur talað um, til að efla bókalestur, styðja við höfunda, efla íslensku. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir að fyrirhugaðar eru ýmsar aðgerðir til þess, og það er vel því að það eigum að gera.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Því fyrr sem ég hætti að tala, þeim mun fyrr hættum við og ég kemst heim að lesa bók. [Hlátur í þingsal.]