149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:20]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Mér líður eiginlega eins og ég sé kominn inn í miðja keppni um hver sé dyggasti stuðningsmaður frumvarpsins. Ég get lýst því yfir í upphafi máls míns að ég mun tapa þeirri keppni.

Mér finnst þetta mjög áhugavert mál og er sammála mörgu af því sem hefur verið sagt um öll meginmarkmið, þ.e. að gríðarlega mikilvægt sé fyrir okkur að styðja ötullega við menningu. Það er mjög margt sem hin hefðbundnu markaðslögmál eiga ekkert endilega við um í því samhengi. Við styðjum myndarlega við leikhús og sinfóníu, eins og hefur verið nefnt, og fjölmarga menningarviðburði sem myndu vafalítið ekki bera sig nema einmitt með opinberum stuðningi.

Það er líka gríðarlega mikilvægt sem kom fram í máli hæstv. menntamálaráðherra, að stuðla að betra læsi, öflugri lesskilningi barna, unglinga og fullorðins fólks ef því er að skipta, að vernda íslenska tungu. Við erum öll sammála um það og við erum öll sammála um arfleifð okkar, við erum vissulega bókaþjóð.

Það er líka dálítið áhugavert að velta upp hinni hlið málsins. Ég held að allir í salnum séu sammála að gríðarlegar breytingar séu í farvatninu. Fjórða iðn- og tæknibyltingin, eins og við kjósum að kalla hana, er að hellast yfir okkur og öll tölum við um þau margvíslegu tækifæri sem í henni felast — og áskoranir — fyrir okkur sem samfélag. Einnig felur hún í sér tækifæri og áskoranir fyrir fjölmargar aðrar atvinnugreinar. Málið er í mínum huga þannig vaxið að við erum að gera tilraun til að viðhalda mögulega einhvers konar formi hins ritaða máls sem á mjög undir högg að sækja vegna þeirrar sömu tæknibyltingar.

Við höfum áður í bókaútgáfu gengið í gegnum álíka áhrifamiklar byltingar. Við skrifuðum á kálfskinn fyrir ekkert svo löngum tíma síðan. Síðan kom prenttæknin og loks datt einhverjum í hug að útrýma, við getum sagt setjurunum, með því að búa til stafræna tækni til að setja þær sömu bækur upp og prenta og svo mætti áfram telja. Allt útrýmdi það einhverjum atvinnugreinum þess tíma. Við hefðum vafalítið getað stigið inn í þá þróun á sínum tíma með því að niðurgreiða kálfskinn, niðurgreiða laun skrifara þegar Gutenberg kom til sögunnar og svo mætti áfram telja lengi vel. Ég hygg að það hefði litlu breytt um þróun bókarinnar sem varð með þeim tæknibyltingum. Ég held að þetta mál sé nákvæmlega sama marki brennt.

Ég er sannfærður um að fjórða iðn- og tæknibyltingin sé alls engin ógn við hið ritaða mál. Ég held að við og krakkarnir okkar lesum meira í dag, líka á íslensku, en við gerðum áður en t.d. miðlar eins og Facebook og fleiri rafrænir miðlar komu til sögunnar. Ég er ekki endilega sannfærður um að það sé sérstök ógn að bókin breyti enn og aftur um form og verði hugsanlega rafræn, sem mér þykja yfirgnæfandi líkur á, hætti að koma út á pappírsformi nema kannski í undantekningartilvikum.

Við höfum auðvitað séð þá veltuminnkun sem er tilgreind m.a. í greinargerð frumvarpsins. Það hefur orðið mikil veltuminnkun, mikill veltusamdráttur í bókaútgáfu og fjöldi bóka hefur dáið drottni sínum, ef við getum sagt svo. Við prentum t.d. ekki lengur út símaskrá. Ferðahandbækur held ég að séu liggur við teljandi á fingrum annarrar handar en þær voru áður mjög algeng bókaútgáfa. Við sækjum það meira og minna allt saman á netið í dag. Maður átti sér ýmsar kortabækur, sem er annað dæmi, nokkuð sem við sækjum einfaldlega í símann okkar í dag. Svona mætti áfram telja.

Ég held að hið óhjákvæmilega sé að við munum lesa bókina í símum, spjaldtölvum eða hverri þeirri stafrænu tækni sem við munum halda á eftir fimm, tíu eða fimmtán ár. Ég held að sú ákvörðun að niðurgreiða bókaútgáfu um 400 millj. kr. eða 500 millj. kr. á ári, og þótt við myndum auka það enn frekar, muni ekki breyta miklu um bókaútgáfu á pappírsformi almennt.

Það leiðir aftur hugann að því hvað skiptir máli og það er vandað ritað efni, rithöfundarnir sjálfir, að hvati og stuðningur sé við rithöfunda til að gefa út efni. Ef maður horfir á aðrar greinar sem eiga mjög undir högg að sækja í tæknibyltingunni sem við erum að ganga í gegnum má nefna tónlistarútgáfu. Tónlistarútgefendur hér á landi eru, ekki beinlínis að hverfa en afkoma þeirra hefur versnað verulega. Tónlistarmenn eru jafnvel svo ósvífnir að fara algerlega fram hjá tónlistarútgefendum og gefa efni beint og milliliðalaust út á vefnum, oft með býsna góðum árangri. Það eru komnar alls kyns tónlistarveitur sem selja okkur aðgang eða áskrift að tónlist í stað þess að við þurfum að kaupa einstakar plötur eins og áður var.

Ég hugsa að niðurstaðan sé sú að hlustun á tónlist hafi stóraukist. Ég hlusta miklu meira á tónlist og fjölbreyttari tónlist, alls konar tónlist, en ég gerði áður af því að aðgengið hefur stórbatnað.

Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft hafi allar þær tæknibreytingar sem bókin sjálf, frá kálfskinninu og áfram, hefur farið í gegnum orðið til þess að auka aðgengið að henni, gert okkur auðveldara að nálgast ritað mál. Tæknibyltingin sem við göngum í gegnum núna er lýsandi dæmi um nákvæmlega sama og sennilega á skala sem við höfum ekki upplifað áður, nema kannski þegar við fórum úr kálfskinni yfir í Gutenberg.

Ég hygg að ákvörðun um að niðurgreiða af hálfu ríkisins muni ekki endilega breyta miklu um bókaútgáfuna sjálfa. Sú grein er hins vegar í miðju umbreytingarferli og þarf að finna sér nýjan farveg. Ég prófaði reyndar að gúgla áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á bókaútgáfu og komst eiginlega ekki að neinni niðurstöðu um það því að ekki varð þverfótað fyrir bókum um áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar. Það er svo annað mál.

Þetta er tækniþróun sem ég held að muni einfalda okkur mjög að sækja ritað mál. Hún breytir vissulega því formi sem það er sett fram á en þarf ekki að vera ógn. Þvert á móti er þetta stórkostlegt tækifæri, sérstaklega fyrir þá sem eru að skrifa, rithöfundana sjálfa.

Að því sögðu segi ég líka, ef við lækkum aðeins sjóndeildarhringinn í því tiltekna máli: Hér er atvinnugrein í rekstrarvanda. Það er engin vissa um að ríkisstuðningur við hana skili sér til rithöfunda. Ég hef séð miklu sterkari rök fyrir því að sá stuðningur muni ekki gera það, þ.e. að hann muni frekar hverfa í hít. Það er ekki einu sinni víst að slíkur stuðningur skili sér í lægra verði til neytenda. Ég er nokkuð viss um að hann geri það ekki. Það hefur þrengt mjög að afkomu greinarinnar á undanförnum árum og langlíklegast að ríkisniðurgreiðsla eða ríkisstuðningur sem þessi hverfi einfaldlega inn í greinina sjálfa. Ekkert bendir til annars en að þróunin muni einfaldlega halda áfram nema bókaútgáfa fari að færa sig meira yfir á hið rafræna form, en íslenskir bókaútgefendur hafa einmitt verið gagnrýndir fyrir að hafa verið allt of seinir að bregðast við þeirri tækniþróun að koma bókinni frá sér í hljóði, á rafrænu formi. Þar held ég að vandinn liggi hvað helst.

Ef við ætlum til lengri tíma litið að örva skrif bóka held ég að miklu nærtækara væri að efla stuðninginn beint við rithöfundana, samkeppnissjóði um ritverk, styrkja listamannalaun, hvernig sem við viljum nálgast slíkt.

Ég endurtek aftur að ég er ekki sérstakur aðdáandi ríkisniðurgreiðslu á nokkurri atvinnugrein. Ég tel mjög vel forsvaranlegt að gera það þegar kemur að menningu og tungu en gerum það þá með þeim hætti að það nýtist. Ég er nokkuð sannfærður um að dómur sögunnar um málið verður að þetta hafi ekki breytt nokkrum sköpuðum hlut um þá þróun sem er óhjákvæmileg á því sviði.