149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:39]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla mér ekki þá dul að fara að telja hv. þingmanni hughvarf um efnið og ætla ekki að fara að þrátta við hann en mig langar að gera örfáar athugasemdir.

Í fyrsta lagi varðandi kálfskinn, sem fleiri nefndu. Íslenskir bændur höfðu ekki efni á því að slátra kálfum til að vera að skrifa, [Hlátur í þingsal.] það hvarflaði ekki að þeim. Það var kannski bara Bjartur í Sumarhúsum sem gerði það af því að honum var svo illa við kýr. Það var pappír sem var mest skrifað á hér öldum saman. Við eigum urmul af ódýrum pappírshandritum og þannig lifðu sögurnar í gegnum aldirnar hjá okkur, bæði munnlega og í pappírshandritum.

Mér fannst gæta ákveðins vanmats á þekkingunni sem er til staðar í bókaútgáfu við að búa til bókmenntir og búa til ritað mál. Mér fannst gæta þess sjónarmiðs að rithöfundurinn væri í einhverju tómarúmi og gæti átt milliliðalaust samband við lesendur með vöru sína. Vissulega er það til í dæminu og við höfum átt mjög góða höfunda sem hafa gert slíkt, gefið út sjálfir í gegnum tíðina, en það heyrir meira til undantekninga.

Það er líka misskilningur, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að ekki standi til að efla útgáfu með nýjum hætti í nýjum miðlum. Þar vil ég nefna alveg sérstaklega að ríkið hefur með höndum starfsemi, hljóðbókasafnið, sem er í beinni samkeppni við hefðbundnar bókaútgáfur við að gefa út sögur sínar á hljóðformi. Það er kannski eitthvað sem við þurfum að líta á.