149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:44]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni með hina nýju stafrænu tækni. Sú þróun er raunar á fullu og til er fullt af bókum á því formi. Ef hv. þingmaður finnur réttu staðina mun hann geta lesið fullt af bókum í græjunni sinni.

Engu að síður er bókin, pappírsbókin, bókin sem efnislegur hlutur, enn þá lifandi vara. Það eru enn þá þúsundir fólks sem kaupa bækur, bæði til gjafa fyrir jólin og til að gefa vinum og vandamönnum og eins til að lesa og njóta sjálfir, eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé lýsti svo fagurlega áðan. Margt fólk deilir því með hv. þingmanni, vill njóta bókmennta á þann hátt og telur að það sé önnur upplifun og önnur reynsla að lesa texta, fallegan texta eða ljótan texta eða bara texta, á pappír, milli spjalda en af skjá. Fólk vill jafnvel eiga stund án þess að vera með skjá, vill skjálausan lífsstíl í klukkutíma á dag. Við getum alveg reynt að koma til móts við þann hóp.

Aðeins varðandi þær tónlistarveitur sem hv. þingmaður notfærir sér, og ég raunar líka. Hlutdeild listamannanna af þeim gróða sem fellur til hjá tónlistarveitunum er smánarlega lítill. Það er nánast ekki hægt að tala um hann. Ég óska íslenskum rithöfundum ekki þeirra örlaga að upplifa svipuð kjör og tónlistarfólk býr við hjá erlendum tónlistarveitum.