149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[18:55]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð á þessu athyglisverða máli þar sem verið er að breyta lögum og umgjörð um starfsumhverfi dýralækna að tilmælum umboðsmanns Alþingis. Eins og við vitum er hér á landi fjöldinn af erlendu fólki sem leggur okkur lið í samfélaginu og leggur gott til, margt hæfileikaríkt fólk sem vinnur við hjúkrun, aðhlynningu og lækningu mannfólksins. Þar hefur ekki verið gerð nein sérstök krafa um íslenskukunnáttu. Það höfum við aftur á móti gert með dýralækna sem fær mann til að hugsa eitt og annað í þeim efnum, hvort íslenska sauðkindin, kóróna sköpunarverksins, velti nokkuð fyrir sér hvaða mál sá talar sem er að lækna hana. Það má vera að þetta skipti hunda og ketti máli en það er kannski önnur saga.

Hvernig hefur íslenskukunnátta þessara aðila verið metin fram að þessu? Eru einhverjir sérstakir aðilar sem hafa séð um þann þátt og þá eftirfylgni til að fylgja því eftir? Svo velti ég fyrir mér hvenær málakunnátta skipti máli. Í hvaða aðstæðum er hægt að gera þær kröfur að fólk þurfi að hafa vald á íslenskri tungu til að geta sinnt dýralækningum eða þeim verkefnum sem fyrir dýralæknum liggja? Þetta eru vangaveltur sem ég vil varpa til hæstv. ráðherra.