149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[18:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Miðað við ágæta umræðu í gær um stöðu sauðfjárræktarinnar hefði maður getað dregið þá ályktun að kóróna sköpunarverksins skildi öll heimsins tungumál, slíkur var ljóminn í ræðum sumra þingmanna. Það mál sem hér liggur fyrir á sér, eins og þingmaðurinn réttilega gat um, ákveðinn uppruna sem kemur til m.a. af skoðun umboðsmanns Alþingis en ekki síður hinu að Matvælastofnun hefur líka sent inn athugasemdir. Hún uppfyllir beinlínis ekki lagaskyldu þegar hún ræður til eftirlits, sérstaklega í sláturtíð, dýralækna af erlendu bergi sem eru ekki mæltir á íslenska tungu.

Þegar spurt er hvaða aðstæður kalli á að íslenskumælandi þurfi að bregðast við er það í mínum huga dálítið vandséð. Það væri helst við einhverja rannsóknarvinnu þar sem eru hlutlægar mælingar sem tungumálið skiptir ekki máli, ef það er meira og minna bara stærðfræði eða formúlur. Að sjálfsögðu eru þær aðstæður uppi sem kalla á það í þjónustu við þá sem halda húsdýr, gæludýr, þar sem er í sumum tilvikum einfaldlega bráðnauðsynlegt að þjónustuaðilinn tali það mál sem sá sem annast um skepnurnar skilur. Við munum sækja fyrirmynd til heilbrigðishlutans að því með hvaða hætti þetta er fært í reglugerð og styðjast við það en ég held að stóra línan sé einfaldlega sú að þetta verði lagt í hendurnar á Matvælastofnun hverju sinni sem (Forseti hringir.) meti þörfina og getuna.