149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[19:00]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir kynninguna á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Við sem vinnum í þessum geira þekkjum hvernig þetta er í dag, að hér eru erlendir dýralæknar í vinnu og ekki hef ég út á það að setja. Þeir vinna starf sitt mjög vel. Ég velti fyrir mér hvort menn hafi hugsað það eitthvað að það þarf að skrifa heilbrigðisskýrslur. Flestir geta stautað sig fram úr ensku en það verður ansi snúið þegar skýrslurnar eru komnar á spænsku eða rúmensku. Ég velti fyrir mér og vil spyrja ráðherra hvort það hafi komið til tals að þær skýrslur sem við fáum sendar úr afurðastöðvum um heilbrigði dýra verði þýddar á skiljanlegt mál og þá á ég við íslensku eða ensku. Það hefur komið fyrir margoft að við höfum fengið þessar skýrslur á rúmensku, spænsku og einhverjum öðrum málum einnig. Þær segja okkur því miður bara alls ekki neitt. Ég er ekki að setja út á starfsmennina sem slíka, þeir eru verulega hæfir í því sem þeir gera, en skilaboðin sem þeir senda til okkar þurfa að komast til skila.