149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[19:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég gat þess ekki hér áðan, nema það kom fram í framsöguræðunni, að þetta er verkefni sem Matvælastofnun, Bændasamtökin, Dýralæknafélagið og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hafa setið yfir og hafa m.a. rætt með hvaða hætti hægt er að koma þessum upplýsingum áfram. Það er hárrétt að svona grunngögn þurfa að vera með einhverjum þeim hætti að þeim sem þau eiga að nýtast sé gert kleift að skilja innihaldið í textanum. Að sjálfsögðu verðum við að búa svo um hnútana að það skiljist. Ég kann ekki ferlana alla í því hvernig það verður best tryggt en, mikil ósköp, við þurfum að kappkosta að grundvallarupplýsingar að öllu því sem snýr að heilbrigði dýra komist með réttum og skilmerkilegum hætti til þeirra sem eru í ábyrgðarhlutverkum við umönnun þessa sama búsmala.