149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[19:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar. Frumvarpið byggist á frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi á 148. löggjafarþingi, 426. mál, en hlaut ekki afgreiðslu.

Frumvarpinu er ætlað að jafna aðgang þeirra sem þurfa á dvöl í dvalarrými eða dagdvöl að halda, óháð aldri, og forgangsraða beiðnum eftir þörf. Einnig eru gerðar ákveðnar breytingar sem nauðsynlegar eru taldar til samræmingar og skýringar.

Ákvæði um dvalarrými og dagdvöl er nú einungis að finna í lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, en ekki í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Rétt þykir að bæta í þau lög ákvæðum um dvalarrými og dagdvöl svo og í lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Í lögum um málefni aldraðra kemur fram að þótt hjúkrunarheimili séu skilgreind fyrir aldraða sé heimilt að bjóða yngri einstaklingum dvöl þar hafi þeir verið metnir í þörf fyrir slíkt úrræði. Samkvæmt gildandi ákvæðum eru úrræði um dagdvöl og dvalarrými einungis ætluð öldruðum. Um langa hríð hafa komið upp tilvik þar sem óskað hefur verið eftir undanþágum til dvalar í dvalarrýmum og í dagdvöl fyrir einstaklinga sem eru yngri en 67 ára. Lagastoð fyrir slíkum undanþágum hefur vantað, en með þeirri breytingu á löggjöfinni sem hér er lögð til verður heimilt að veita undanþágu frá aldursskilyrði varðandi dvalarrými og dagdvöl. Má því segja að í raun sé hér gefin lagastoð fyrir framkvæmd sem hefur verið við lýði um allnokkurt skeið.

Við samningu þessa frumvarps var haft samráð við Sjúkratryggingastofnun Íslands og Tryggingastofnun. Þá voru einnig haldnir samráðsfundir með Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Landssambandi eldri borgara, NPA-miðstöðinni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Við endurflutning þessa frumvarps hefur verið leitast við að mæta athugasemdum og ábendingum sem fram hafa komið eftir því sem mögulegt var. Fram kom ánægja með þá fyrirætlun sem lögð er til í frumvarpinu, að faglegt inntökuteymi mæti þörf á dagdvöl. Sú heimild sem felst í frumvarpinu, að opna úrræðin fyrir þá sem eru yngri en 67 ára, mun helst koma til álita þegar um er að ræða unga einstaklinga með minnissjúkdóma eða sérstaklega erfiða sjúkdóma. Bent var á að þarfir fólks eru mismunandi á mismunandi aldursskeiðum, sem er sannarlega rétt, og að tillit þurfi að taka til þess í þjónustu við fólk. Mikilvægt er að matsnefndir og/eða inntökuteymi hafi slík sjónarmið til hliðsjónar þegar mat á þörf fyrir dagdvalarþjónustu fer fram.

Stofnanaþjónusta eins og í dvalarrýmum og reyndar líka í hjúkrunarrýmum á einungis að koma til þegar faglegt mat er að það þjónustuúrræði mæti best þörfum viðkomandi og önnur úrræði duga ekki til. Mikilvægt er að þjónustan sé veitt í samræmi við þarfir hvers einstaklings og í samráði við hann.

Í frumvarpinu er lagt til að 24. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, verði breytt þannig að skýrt sé að sjúkratrygging nái til þjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl, sem samið hefur verið um samkvæmt IV. kafla laganna. Breytingin er til þess fallin að skýra orðalag núgildandi laga að því er varðar dvalarrými og dagdvöl.

Í frumvarpinu er einnig að finna reglugerðarheimild sem ætlunin er að setja í lög um málefni aldraðra til handa ráðherra til að kveða nánar á um fyrirkomulag faglegs inntökuteymis og skilyrði mats á þörf fyrir dagdvöl.

Þá er gert ráð fyrir breytingu á lögum um málefni aldraðra þannig að í stað þess að hámark kostnaðarþátttöku fyrir dagdvöl einstaklings miðist við óskertan grunnlífeyri verði miðað við 18% af fullum ellilífeyri samkvæmt 23. gr. laga um almannatryggingar. Svokallaður grunnlífeyrir ellilífeyrisþega var afnuminn frá 1. janúar 2017 með lögum nr. 116/2016, um breytingu á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, þegar bótaflokkar ellilífeyrisþegar voru sameinaðir. Fjárhæð hins nýja ellilífeyris er mun hærri en fjárhæð eldri grunnlífeyris og því þykir nauðsynlegt að breyta ákvæðinu þannig að miðað verði við ákveðið hlutfall af fullri fjárhæð hins nýja ellilífeyris sem samsvarar fyrri fjárhæð grunnlífeyris ellilífeyrisþega að teknu tilliti til þeirra hækkana sem orðið hafa á bótum almannatrygginga.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa frumvarps en vil segja í lokin á framsögu minni að á síðasta þingi hafði hv. velferðarnefnd forvera þessa frumvarps, ef svo má að orði komast, til umfjöllunar og komst að þeirri niðurstöðu, sem mér fannst rétt og málefnaleg, að málið væri ekki nægilega unnið til að ljúka afgreiðslu þess frá Alþingi, enda hefði þurft að gera betur að því er varðaði samráð við þá sem löggjöfina varðaði. Af þeim sökum hefur ráðuneytið nú brugðist við þeim athugasemdum, auk fleiri sem fram komu í meðferð nefndarinnar á síðasta þingi, en ég vænti þess núna, virðulegur forseti, að búið sé að svara þeim spurningum sem upp komu í umfjöllun nefndarinnar á fyrri stigum. Málið ætti núna að teljast fullbúið til að ljúka að þessu sinni og ég vænti þess að eiga gott samstarf við hv. velferðarnefnd í þeim efnum.