149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[19:26]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og fleiri lögum. Málið hefur verið kallað dagdvalar- og dvalarrýmismálið. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan kom málið fyrir þingið á síðasta þingi en að lokinni umfjöllun í hv. velferðarnefnd var það samdóma álit ráðuneytisins og nefndarinnar að málið þyrfti að fá að þroskast meira og að leitað skyldi eftir meira samráði en hefði verið gert í aðdraganda flutnings þess þá. Það hefur nú verið gert og það er vel.

Ég held mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu að þau ákvæði sem við erum að breyta hér eru ákvæði til að taka á undantekningartilfellum. Það var einmitt sú gagnrýni sem kom hvað sterkast fram í umfjöllun nefndarinnar, að menn höfðu áhyggjur af því að hér væri verið að búa til farveg fyrir almenn úrræði fyrir yngra fólk. En auðvitað er það ekki svo, hér er verið að skýra leiðir og tryggja að einstaklingum sem þurfa á tiltekinni þjónustu að halda verði ekki meinað um þá þjónustu á grundvelli aldurs. Það er fyrst og síðast það sem við erum að gera.

Við megum heldur ekki gleyma því að dagdvalar- og dagþjálfunarþjónusta er mjög mikilvæg fyrir marga aldurshópa. Ráðherra kom inn á að við erum kannski í þessum hópi fyrst og fremst að tala um einstaklinga með minnissjúkdóma sem þurfa í einhverjum tilfellum á þessari þjónustu að halda og afar mikilvægt að þeim sé ekki neitað um hana. Varðandi það sem hefur aðeins verið komið inn á í umræðunni, að hér sé um að ræða úrræði sem henti ekki alltaf yngri einstaklingum, þ.e. bæði dvalarrýmin og dagdvalirnar, getur það auðvitað verið en ég held að með tíð og tíma muni menn aðlaga þjónustuna. Sú krafa hefur líka verið uppi í samfélaginu að við reynum að bregðast við því eins og hægt er.

Sem betur fer er það þannig að með aukinni áherslu á utanstofnanaþjónustu og með aukinni áherslu á lausnir eins og notendastýrða persónulega aðstoð minnkar vonandi smátt og smátt þörf fyrir stofnanaþjónustu fyrir yngri einstaklinga, hvort heldur þeir eru með alvarlega sjúkdóma eða heilabilanir. Vonandi mun þetta frumvarp ekki eiga við um mjög marga einstaklinga á hverju ári, en það er mikilvægt að hafa þessa heimild.

Dagdvöl og dagþjálfun eru tiltölulega ódýr úrræði eins og hefur raunar komið fram í umræðunni. Við erum að tala um úrræði þar sem hægt er að sinna býsna mörgum einstaklingum fyrir tiltölulega lágar fjárhæðir og um leið auðvelda þessum einstaklingum og fjölskyldum þeirra að halda áfram sjálfstæðri búsetu. Það er gríðarlega mikilvægt og það má ekki gera lítið úr því.

Ráðherra kom aðeins inn á heimildarákvæði í reglugerð um inntökuteymi fyrir dagdvalir og dagþjálfanir. Ég geri ráð fyrir að hv. velferðarnefnd muni ræða það atriði eitthvað frekar. Það er spurning hvort setja þarf upp mikinn strúktúr í kringum það þegar við erum að ræða um að dagdvöl og dagþjálfun er meðferðarúrræði, það er í rauninni meðferð þessara einstaklinga sem um ræðir. Það er spurning hvort það eigi að vera einhvers konar nefnd sem eigi að segja til um meðferð. Það er kannski alveg nóg að tilgreina hvaða heilbrigðisstéttir eða heilbrigðisstarfsmenn geta óskað eftir þessu úrræði og að þeirra faglega mat á hverjum tíma dugi. Við munum ræða þetta nánar í nefndinni.

Eitt hefur ekki verið rætt hér sem ég ætla að lokum að koma aðeins inn á, kostnaðargreining á dagdvalar- og dagþjálfunarúrræðum. Við höfum heyrt það úti í samfélaginu, raunar kom hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir aðeins inn á það áðan, að þeir sem reka dagdvalir og dagþjálfanir bera sig illa af þeim framlögum sem koma frá Sjúkratryggingum vegna þeirra, þ.e. að framlögin séu of lág. Þetta hefur raunar verið í umræðunni um þó nokkurt skeið. Ég vænti þess að þótt það komi ekki beint þessu frumvarpi við noti hæstv. ráðherra ferðina og noti það tilefni sem frumvarpið vekur til að velta þessum málum upp, nefndin mun vafalítið gera það líka, og ræða jafnvel við hagsmunaaðila um það með hvaða hætti væri hægt að koma þeim málum betur fyrir þannig að kostnaðargrunnurinn undir dagdvalirnar sé nægilega styrkur. Þetta úrræði væri þá hægt að reka af þeim myndugleik sem þarf til þess að gera það annars vegar eftirsóknarvert og hins vegar til að geta þjónað því hlutverki sínu að vera úrræði sem hjálpar upp á sjálfstæða búsetu. Það er væntanlega það sem við viljum að fólk geti búið við sem allra lengst.