149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við Íslendingar búum í hagkerfi óstöðugleika. Hér ríkir verðtrygging sem sett var á til að mæta 60% verðbólgu. Hún er enn við lýði 40 árum síðar í 3% verðbólgu.

Hér ríkja einna hæstu vextir í veröldinni, þrefalt hærri en t.d. í Færeyjum. Í hinu séríslenska umhverfi, sem stjórnmálamenn lofa stöðugt að laga og ekkert gerist, eru þeir lánsamir sem skulda sem minnst. Þeir sem skulduðu minnst í hruninu voru þeir sem urðu fyrir minnstum skakkaföllum.

Ríkissjóður greiðir niður skuldir sínar og hefur náðst ágætur árangur í þeim efnum á undanförnum misserum. En hvað með almenning? Er hann hvattur til að greiða niður skuldir sínar eða endurfjármagna lán sín? Nei, svo er ekki, a.m.k. ekki þegar Íbúðalánasjóður á í hlut. Rúmlega 7.000 útistandandi lán á vegum Íbúðalánasjóðs bera svokallað uppgreiðslugjald.

Ef lántaki vill vera skynsamur og hefur tök á því að borga lánið sitt upp eða endurfjármagna þarf hann að borga sérstakt gjald fyrir það. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að borga einhvers konar umsýslugjald en þegar gjaldið er farið að nema 10–15% af lánsfjárhæðinni, sem á við í mörgum tilfellum, er það komið út fyrir öll velsæmismörk, þegar gjaldið er farið að hlaupa á milljónum fyrir venjulegt fólk.

Það átti að upplýsa fólk nákvæmlega hvað gjaldið gæti orðið hátt áður en það tók lánið. Það var ekki gert. Um mjög íþyngjandi skilmála er að ræða og þess vegna átti að láta lántaka skrifa undir hvað uppgreiðslugjaldið gæti orðið hátt, á sama hátt og lántaka er gert að skrifa undir greiðsluáætlun miðað við ákveðna verðbólguáætlun.

Í dag bera ný lán Íbúðalánasjóðs ekki uppgreiðslugjald, sem betur fer, en það eru hins vegar 7.000 heimili í fjötrum hins óréttláta kerfis. Það á ekki að letja fólk til að greiða niður skuldir sínar.