149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar til að ræða hér aðeins um framhaldsskóla landsins sem eru merkilegar stofnanir og skila ungu fólki út í lífið, ýmist til frekara náms eða til starfa. Það er mikilvægur áfangi í lífi hvers og eins og þeir sem stýra þar starfi og ala upp þetta unga fólk leggja mikla áherslu á að gera það sem allra best og fara vel með það ríkisfé sem lagt er fram til þessara hluta. Eitt af því sem hefur verið gert til þess að hagræða og gera ungu fólki auðveldara að klára nám sitt á réttum tíma er að samtök nokkurra framhaldsskóla, nánar tiltekið 13, eru það sem við köllum fjarmenntaskólar. Þessir 13 skólar hafa það að markmiði að skiptast á nemendum eftir því hver er að kenna hvaða grein. Ég tek raunhæft dæmi af nemanda í skóla A sem vantar að geta klárað líffræði 103 á þessari önn — það eru að vísu komin önnur heiti á þetta núna en það breytir engu — og það eru of fáir nemendur í hans skóla til að hann geti fengið kennslu í því fagi. Þá er kannski hægt að taka þetta nám í öðrum skóla og þannig reyna menn að hagræða og skipta á milli sín nemendum. Þetta er allt saman gert til að draga úr kostnaði, gera nemendum auðveldara fyrir að klára á réttum tíma og styrkja stöðu framhaldsskólans og þeirra sem þar stunda nám.

Ég hafði hugsað mér að koma inn á fleiri hluti hér. Ég vona að ég fái tækifæri til þess, en læt þetta duga.