149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hvers vegna ætli íslensk ungmenni velji síður að leggja stund á iðnnám en bóknám? Það er ljóst að þörfin fyrir iðnmenntað fólk á Íslandi er mikil og mörg fyrirtæki, t.d. í byggingariðnaði, leita út fyrir landsteinana til að manna verkefni sín. Mikill skortur er á smiðum, pípulagningarmönnum, vélvirkjum og rafvirkjum svo að eitthvað sé nefnt. Þegar við berum okkur saman við nágrannalönd okkar erum við miklir eftirbátar. Það er eitthvað varðandi hugarfar fólks sem gerir að verkum að foreldrar hvetja börn sín síður til að fara í iðnnám. Fólk virðist almennt bera minni virðingu fyrir störfum sem krefjast líkamlegrar færni en störfum sem unnin eru að mestu á skrifstofum fyrir framan tölvuskjá.

Ég hef tilfinningu fyrir því að foreldrar sjái lítinn mun á ófaglærðu verkafólki og iðnmenntuðu fólki. Í huga fólks kviknar mynd af manneskju sem vinnur úti í alls kyns veðrum langan vinnudag. Samstarfsfólkið er að mestu erlent, aðstæður slæmur og aðbúnaður ekki góður.

Á tyllidögum tölum við iðnnámið gjarnan upp. Allir menntamálaráðherrar í mínu minni hafa talað um mikilvægi iðnmenntunar en staðan breytist þó lítið. Oft hefur verið farið af stað með einhvers konar átak en ég held að nú sé komið að því að móta stefnu í þessu máli, ekki fara í enn eitt tímabundið átakið.

Brottfall úr framhaldsskólum er meira á Íslandi en í nágrannalöndum okkar og margt skólafólk hefur sett það í samhengi við það hve fáir nemendur fara í iðnnám. Við hljótum öll að vera sammála um að nemendur á framhaldsskólaaldri eru fjölbreyttur hópur. Samt fara þau flest nákvæmlega sömu leiðina þegar komið er í framhaldsskóla. Þau fara annaðhvort á félagsvísindabraut eða náttúruvísindabraut. Ég trúi því að með því að beina fleiri nemendum í iðnnám getum við dregið úr brottfalli.

Ég er ekki með lausnina en ég held að rétt væri að vinna nú að því að auka veg iðnmenntunar og breyta hugmyndum fólks til frambúðar.