149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku kvartaði hv. þm. Ásmundur Friðriksson yfir því að Píratar hefðu bendlað hann við SS-sveitir nasista og kallað hann SS-mann. Það er ósatt. Eins og heyrist á upptökum af tilheyrandi þingfundi er hið rétta að þingmaðurinn notaði sjálfur að eigin frumkvæði hugtakið SS-sveit yfir sérfræðinga að sunnan.

Hv. þingmaður Pírata Smári McCarthy gagnrýndi þá líkingu og bað Ásmund Friðriksson um að draga hana til baka, sem og hann gerði. Hinn alræmdi Pírati féllst á það. Degi síðar stígur Ásmundur Friðriksson hér upp aftur og segir að Píratar hafi kallað sig SS-mann. Hann sagði líka frá því að Pírati hefði sagt Piu Kjærsgaard vera sömu skoðunar og Adolf Hitler.

Ef hann vísar til viðtals við mig á RÚV á sínum tíma þá er það einnig rangt. Í umræðu um útlendingaandúð Piu Kjærsgaard var bent á að hún væri lýðræðislega kjörin — eins og að hún gæti þá ekki verið haldin útlendingaandúð. Ég svaraði með þeirri sögulegu staðreynd að Hitler hefði líka haft atkvæði á bak við sig, sem er augljóslega ekki það sama og vera sömu skoðunar.

Allir í þessum sal eru með atkvæði á bak við sig, þar á meðal ég sjálfur. Ég benti á að óþokkar kæmust til valda þegar fólk kysi óþokka. Það er engin mótsögn þar.

Ég hefði viljað fara dýpra í þessu viðtali og ég skil að fólk bregðist við tali um Hitler með tilfinningahita og án þess að hugsa. Mér finnst það óþolandi en ég skil það. Ég skil hins vegar ekki hvernig hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni tókst að túlka umræðuna í síðustu viku þannig að Píratar hefðu bendlað hann við SS-sveitir nema út frá þeirri leiðinlegu skýringu að hann hafi vísvitandi sagt ósatt.

Mig langar til að trúa því að svo sé ekki. Því býð ég Ásmundi Friðrikssyni að veita betri skýringu og vitaskuld að draga ósannindin sjálf til baka, sem ég ætlast að sjálfsögðu til að hann geri. Að lokum þakka ég honum fyrir að hafa þegið boð um að ræða þetta við mig í dag.