149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Krónan okkar íslenska hefur fallið um 12,3% gagnvart evru frá þeim degi að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar tók við fyrir innan við ári. Ein evra kostar núna rúmar 137 kr., já, krónan er að taka dýfu eina ferðina enn. Gjaldmiðill okkar er minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi og sveiflast ótt og títt af ýmsum ástæðum, bæði innlendum og vegna utanaðkomandi áhrifa. Krónan sveiflast líka og stendur veik fyrir þegar íslensk stjórnvöld gera mistök og kjör fólksins í landinu sveiflast með krónunni. Fjölskyldur greiða hærra hlutfall af launum í húsnæðiskostnað. Vextir hér á landi eru mun hærri en í nágrannalöndum okkar. Matarkarfan verður auk þess dýrari og allur innfluttur varningur. Þá er ótalinn kostnaðurinn fyrir atvinnulífið og óvissan í viðskiptum við önnur lönd. Með stöðugri gjaldmiðli gætu heimilin sparað sér tugi þúsunda á hverjum mánuði og notið sambærilegra lífskjara við íbúa hinna Norðurlandanna, líka Færeyinga sem eru með sinn gjaldmiðil bundinn við dönsku krónuna og danska krónan er bundin við evru. Fyrirtækin fengju örugglega öruggara rekstrarumhverfi.

Almenningur er að átta sig betur og betur á uslanum sem krónan hefur valdið í gegnum árin og veldur enn. Samkvæmt nýjustu könnun sem Gallup gerði fyrir Já Ísland vildu töluvert fleiri Íslendingar taka upp evru en halda krónunni, en ríkisstjórnin hyggst standa vörð um krónuna og tekur um leið stöðu gegn kjörum almennings. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin talar um mikilvægi stöðugleikans, að laun megi alls ekki hækka, að launafólk verði að skilja það, en horfir svo aðgerðalaus hjá þegar kjörin rýrna þegar krónan fellur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)