149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í gær, á fundi efnahags- og viðskiptanefndar, gagnrýndi ég Samtök atvinnulífsins fyrir ómálefnalega gagnrýni á fyrirhugaða hækkun kolefnisgjalds. Nokkur umræða skapaðist í nefndinni við fulltrúa SA um loftslagsmál og stóru myndina eins og ég kýs að kalla hana. Á þessum degi ætla ég aftur að hrósa Samtökum atvinnulífsins fyrir umhverfisdag atvinnulífsins sem haldinn er í dag.

Í morgun ræddu þau sem eru í forsvari fyrir atvinnulífið um mikilvægi þess að þau leggist á árarnar með stjórnvöldum og almenningi á sviði umhverfismála. Verið er að gera fullt af góðum hlutum í íslensku atvinnulífi, ég sannfærðist um það í morgun. En betur má ef duga skal og því er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda, um framlag til loftslagsmála á alþjóðlegum vettvangi, mikilvægur þáttur í árangri okkar sem samfélags á sviði loftslagsmála.

Atvinnulífið er nefnilega hluti af lausninni og við náum aldrei árangri nema að leggjast saman á árarnar. Það kann að vera að við hér þurfum að beita einhvers konar þvingunaraðgerðum, t.d. kolefnisskatti, en þó eru hvatar almennt æskilegri. Mikilvægast er samt samstarf um rannsóknir, þróun og nýsköpun. Hér verða atvinnulífið og vísindasamfélagið að vinna saman með styrk og stuðningi ríkisins.

Hér á Íslandi búum við yfir mikilli þekkingu á sviði umhverfis- og loftslagsmála sem á erindi út í heim. Með okkar sjálfbæru nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa getur Ísland orðið fyrirmynd í loftslagsmálum og hjálpað öðrum ríkjum við að ná árangri og það erum við nú þegar að gera.

Virðulegur forseti. Við höfum margt fram að færa á alþjóðavettvangi þegar kemur að stærsta máli samtímans, loftslagsmálum, en við þurfum jafnframt að gera margt hér heima. Förum sameinuð og samstiga inn í það verkefni.