149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég var á opnum fundi í Ráðhúsinu áðan þar sem verið var að kynna alveg gríðarlega flott verkefni Reykjavíkurborgar sem er stytting vinnuvikunnar. Á fundinum voru kynnt áhrif þessarar tilraunar sem byrjaði árið 2015 á fjölskyldulíf fólks og jafnrétti kynjanna.

Nú þegar áhrif tilraunarinnar eru mæld kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Stytting vinnuvikunnar hefur haft þau áhrif að fólki líður betur í vinnunni. Það er betri starfsandi, aukin starfsánægja og gleði, betra jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og dregið hefur úr því að fólk upplifi kulnun, þ.e. andleg og líkamleg streitueinkenni. Það er marktækt minna álag á fólki. Tími fólks nýtist betur og það eru færri fjarvistir á vinnutíma. Fólk upplifir bætta líkamlega og andlega heilsu, meiri orku, úthald og meiri tíma; verðmætan tíma til að verja með börnum sínum, fjölskyldu og vinum og til að sinna heimilinu.

Einnig hefur komið fram að stytting vinnuvikunnar hefur keðjuverkandi áhrif, þ.e. fjölskyldur og börn njóta skiljanlega góðs af þessu líka. Það er fátt sem gleður dóttur mína jafn mikið og þegar ég get sótt hana í skólann, átt innilegt samtal við hana um daginn og líðan hennar og eldað svo fyrir hana uppáhaldsmatinn hennar. Aukinn tími þýðir minni streita og við getum losnað við þessi algengu streitusamskipti sem grafa undan hlátrinum og gleðinni og létt tilveruna og styrkt sambönd okkar við okkar nánustu. Þessi tími er dýrmætur. Aukin þátttaka okkar í daglegu lífi barnanna okkar er dýrmæt fyrir vellíðan barna okkar og heilbrigði þeirra og samfélagsins inn í framtíðina.

Kæru kollegar. Ég legg til að við lærum af þessari mikilvægu tilraun og þróum hana áfram.