149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í gær mælti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir fyrir stjórnarfrumvarpi um stuðning við útgáfu bóka á okkar ástkæra og ylhýra máli, íslensku. Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót stuðningskerfi sem heimilar endurgreiðslu á beinum kostnaði við útgáfu bóka á íslensku prenti og á rafrænu formi. Þannig er á sama tíma lagt kapp á að halda í það sem er gott og gamalt en líka komið til móts við nýja tíma og tækni.

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til að fagna þessum aðgerðum í þágu íslenskra bókmennta en áhrif frumvarpsins koma m.a. til með að koma fram í auknu framboði bóka og lægra verði til neytenda. Með því að styrkja rekstrargrundvöll útgáfufyrirtækja er lagður grunnur að öflugri útgáfustarfsemi sem aftur er rithöfundum mikilvægur og nauðsynlegur farvegur til að koma verkum sínum á framfæri. Neytendur njóta svo góðs af með fjölbreyttu efni, vonandi á lægra verði og í aðgengilegra formi í sumum tilfellum.

Viðbrögð bókaútgefenda eru á þann veg að það gefur ástæðu til bjartsýni þar sem þeir telja þetta frumvarp styrkja kraftmikla bókaútgáfu allt árið. Það er prýðilegt fyrir bókaþjóðina.

Hæstv. forseti. Kveðið er á um stuðning við hina íslensku bók í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið er liður í eflingu íslenskunnar sem liður í eflingu læsis en í dag er svo komið að bóksala á Íslandi hefur dregist saman um 36% síðustu tíu árin. Til að mæta þeirri gríðarlegu samkeppni sem afþreyingarefni á hinum ýmsu tungumálum veitir þurfa íslensk ungmenni að geta nálgast áhugavert og skemmtilegt lesefni á íslensku. Með því að stuðla að auknum lestri og efla þannig læsi stuðlum við að menntun fyrir alla. Læs þjóð mun ná lengra þegar að því kemur að byggja hér upp hugverkadrifið hagkerfi. Það er harla gott.