149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Hugmyndir heilbrigðisráðherra um sérstaka kvennaheilsugæslu hafa eðlilega vakið nokkra athygli og ýmislegt er um það mál að segja. Mig langar að grípa hér á lofti þá gagnrýni sem heyrst hefur um að þetta nýja úrræði sé sett á laggirnar með hraði nú þegar stefnt er að heildarendurskoðun á heilsugæslunni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem verk hafa verið tekin út fyrir sviga.

Í síðasta mánuði var þjónustusamningur ríkisins við Krabbameinsfélagið framlengdur í sjöunda skipti, óbreyttur með tilheyrandi óhagræði fyrir félagið og verk þess. Ástæða þess að ekki er hægt að ganga til samninga við félagið, ganga til viðræðna um nýjan þjónustusamning um framtíðarskipulag skimunar eða ræða hugmyndir félagsins, mjög vel ígrundaðar, um slíkt skipulag og framtíðina, er sú að beðið er eftir niðurstöðum sérstaks skimunarráðs sem ku vera á döfinni og verður kannski kynnt bráðum. En það er sem sagt ekkert hægt að gera.

Samt er það ekki alveg þannig að ekkert sé hægt að gera vegna þess að í fjárlagafrumvarpi, sem líka var kynnt í síðasta mánuði, er gert ráð fyrir 70 millj. kr. framlagi til heilsugæslunnar í skimun og það þrátt fyrir að skimunarráð eigi eftir að skila niðurstöðum sínum og að stefnumótun heilsugæslunnar sé ekki til staðar.

Ég er mikill talsmaður þess að stefnumótun gangi á undan aðgerðum og áætlunum og ég tala nú ekki um útgjöldum ríkisins en hér finnst mér einhvern veginn að svo lengi sem fjárútlátin séu innan ríkisrekna kerfisins séu til peningar og þá þurfi ekki heildarstefnu. Þetta er mjög sérkennileg nálgun sem ég vona sannarlega að sé tilfallandi í þessum dæmum og fjölmörgum öðrum sem uppi eru. Ég vona að þetta sé ekki hin raunverulega stefna heilbrigðisyfirvalda því að þá er sannarlega verr af stað farið en heima setið.