149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[15:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að eyða hér tíma í þessa mikilvægu umræðu um erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu. Þetta efni hefur ekki mikið verið rætt, svo að ekki sé meira sagt, og vekur það athygli á því að okkur vantar enn grunnstefnu í ferðaþjónustu, opinbera grunnstefnu.

Erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu eru ekki miklar að svo komnu. Þær eru í flugi, aðallega fjármögnun kaupa á vélum; rætt var um kaup á VOW á ákveðnu tímabili. Þær finnast í hótelum og gistingu. Það er nýtt hótel við Hörpu. Kea-hótelin, lúxushótelið á Deplum í Fljótum. Og það má nefna Airbnb og slíkt, þó að það sé óbein fjárfesting. Í afþreyingu má nefna verkefnið Fly Over Iceland og svo má minnast á að erlendar ferðaskrifstofur hafa sumar verið með smáfjárfestingar hér vegna útibúa á Íslandi.

Breytingar eru í aðsigi. Sædýrasýning með mjöldrum er í uppsiglingu í Eyjum, stórt verkefni með fjárfestingu yfir milljarð. Það eru fleiri hótel á landsbyggðinni, einhver náttúrutengd afþreying, jafnvel heilsutengd. Þetta er hvísl sem maður heyrir. Og í samgöngum má hugsanlega nefna rútufyrirtæki og ef svo færi að Uber og Lift kæmu hér og fleiri slík fyrirtæki má kalla það fjárfestingu.

Ég spyr hvort það sé raunverulega vilji fyrir þessu. Þetta er svipuð þróun og hefur verið annars staðar þar sem er hagnaðarvon og milljónir ferðamanna á faraldsfæti en hún hefur verið hægari en víðast hvar erlendis. Ég spyr hæstv. ráðherra um hennar mat á vaxandi erlendum fjárfestingum í ferðaþjónustu, hvort hún telji að þær muni aukast mikið og hvað við vitum nú þegar af slíkum verkefnum í burðarliðnum.

Það er alkunna að erlendum fjárfestingum í fiskveiðum og útgerð eru settar harðar skorður. Þá spyrja menn: Hvað með hina stóru atvinnugreinina? Það er reyndar ólíku saman að jafna, annars vegar frumframleiðslugrein þar sem er bein auðlindanýting og hins vegar þjónustuatvinnuvegur með miklu óbeinni auðlindanýtingu. Spurningin er engu að síður brýn vegna stöðu ferðaþjónustunnar sem stærsta atvinnuvegs þjóðarinnar: Á að setja erlendum fjárfestingum skorður? Er það kleift vegna samninga, t.d. við Evrópuþjóðir? Hvað segir hæstv. ráðherra um það? Og hvers konar skorður, ef einhverjar?

Þetta eru stórar spurningar og hafa, eins og ég segi, verið lítið ræddar en eru að mínu mati fyrir löngu komnar á dagskrá og raunverulega dálítið undarlegt að þetta hafi ekki verið oftar uppi.

Þessu öllu tengist svo land vítt og breitt á eyjunni okkar og landgæði, ýmiss konar auðlindir eða hlunnindi. Við getum nefnt veiði, dúntekju, ferðamannastaði sem eru innan slíkra landareigna. Þá er spurningin um kaup erlendra aðila á jörðum, á jarðnæði og þar með hlunnindum.

Nú liggur þingmál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frammi hér á þingi um endurskoðun laga um uppkaup á landi. Ég veit ekki hvaða afdrif bíða þess en það kemur í sjálfu sér í ljós. En þetta atriði er auðvitað nátengt því efni sem við ræðum hér.

Og þá spyr ég: Hvaða reglur og kröfur ber að setja erlendum aðilum í þessum efnum? Höfum við yfirsýnina þar? Erum við öll nægilega sammála um umfang slíkra fjárfestinga, hverjar þær eiga að vera? Við munum eftir jarðakaupum í Ísafjarðardjúpi. Við þekkjum stórfelld jarðarkaup á Norðausturlandi og einhver jarðarkaup á Suðurlandi, aðallega í nágrenni við Mýrdal, þar í nánd, og sennilega eru þau víðar. Hvert skal stefna í þessum efnum, hæstv. ráðherra?

Það er mikilvægt að bregðast við þessu öllu með opnum og lýðræðislegum hætti, virða alþjóðasamninga en hafa um leið smæð okkar og sérstöðu landsins fyrir augum. Nú hafa sérstakar umræður hér verið mjög málefnalegar, bæði á þessu og á síðasta þingi í mínu minni, og ég vona að hún verði það um þetta mál. Ég hlakka til að heyra bæði viðhorf þingmanna og hæstv. ráðherra til þessara spurninga.