149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[15:47]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir að hefja umræðuna og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir sitt innlegg. Þó að þetta mál láti e.t.v. ekki mikið yfir sér er mikilvægt að taka umræðuna um það eins og svo margt annað í íslenskri ferðaþjónustu og reyna að vera aðeins á undan í þetta skipti í stað þess að þurfa að bregðast við eftir á eins og allt of oft hefur viljað gerast hjá okkur varðandi þennan málaflokk.

Taka þarf tillit til fjölmargra sjónarmiða varðandi erlenda fjárfestingu í ferðaþjónustu og svara mörgum spurningum. Ljóst er að fjölmörg tækifæri geta falist í erlendri fjárfestingu. Það má til að mynda sjá í erlendum rannsóknum sem hafa sýnt fram á tengsl á milli erlendra fjárfestinga í ferðaþjónustu, aukins fjölda ferðamanna og aukins hagvaxtar. Hins vegar er mikilvægt að tryggja að eignir og auðlindir safnist ekki á hendur fárra aðila og þá alls ekki auðlindir sem snerta almannahag eins og t.d. vatnsforði og fleira slíkt.

Herra forseti. Við megum ekki láta hlutina gerast af sjálfu sér og bregðast við eftir á. Ég tel mikilvægt að við teiknum upp ólíkar sviðsmyndir og metum hvað við þurfum að gera til að ná þeim stað sem við viljum vera á í framtíðinni. Ég vil því nota þetta tækifæri og hvetja hæstv. ráðherra til að tryggja að þetta yfirgripsmikla mál verði skoðað í samstarfi við ferðaþjónustuna og að tillögur verði lagðar fyrir þingið.