149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[15:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er alveg ljóst að erlendar fjárfestingar eru jákvæðar fyrir land eins og Ísland. Við eigum mikið undir því að fjárfestar komi með fé inn í landið. Það sýnir að atvinnugreinarnar eru vaxandi og spennandi þegar menn vilja koma með sitt fé inn í landið og fjárfesta. Við þurfum hins vegar að gera ákveðinn greinarmun á því hvort fjárfest er í hlutabréfum í fyrirtæki, rútufyrirtæki eða öðru fyrirtæki, eða í landi og auðlindum þjóðarinnar — eða aðgangi að auðlindum, við skulum frekar orða það þannig.

Þegar kemur að því hvort takmarka eigi erlendar fjárfestingar þá tel ég koma til greina að skoða hvort við getum takmarkað fjárfestingar sem beinast beint að landi eða landnotkun. Við verðum að horfa til framtíðar, Íslendingar, og það er ljóst að þegar til framtíðar er litið mun t.d. verða meiri og meiri eftirspurn eftir matvælum. Þá verðum við að eiga land og landgæði, nýtanlegt land, til þess að geta brugðist við og ekki bara brauðfætt íslensku þjóðina heldur líka mögulega flutt út matvæli.

Margar rannsóknir hafa sýnt að bændur bregða búi víða um heim til að flytja í borgirnar og því eru færri og færri að framleiða matvæli. Vissulega koma inn nýjar greinar eins og eldi og þess háttar, en við verðum að horfa til lengri tíma.

Nýlega skilaði starfshópur á vegum atvinnuvegaráðuneytisins skýrslu um hvaða leiðir séu til þess að takmarka landnotkun eða sölu á landi. Þær tillögur eru vel þess virði að skoða. Bíð ég mjög spenntur eftir að sjá hvað ríkisstjórnin ætlar að gera varðandi það, hvort frumvarp verður lagt fram eða þingsályktunartillaga um það hvernig við getum brugðist við þessum tillögum starfshópsins.

Það er til mikils að vinna að reyna að halda bæði í fjárfestingarnar og í landið okkar, halda í það sem skiptir okkur mestu máli til framtíðar litið. Það er ekki endilega það að hingað komi hlutafé í rútufyrirtæki eða eitthvað slíkt, heldur að við séum með land og landgæði sem við getum nýtt til framtíðar fyrir þjóðina og aðra.