149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[15:51]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir að vekja athygli á þessu brýna verkefni. Við Íslendingar höfum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að byggja hér upp öflugt ferðaþjónustusamfélag sem orðið er megingrein útflutningsatvinnuveganna. Miðað við þær efnahagshorfur sem við stöndum frammi fyrir er eðlilegt að leiða hugann að því hvernig takast skal á við erlenda fjárfestingu í greininni. Við höfum hvorki að fullu lokið skilgreiningu á auðlindum landsins né markað skýra stefnu um nýtingu þeirra. Þó er það svo að Íslendingar einir mega eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Orkuvinnsla skal einnig vera í íslenskri eigu sem og orkudreifing. Í sjávarútvegi gilda strangar reglur um erlent eignarhald á íslenskum útgerðarfélögum og í fiskvinnslum er það mjög takmarkað. Einnig gilda á Íslandi takmarkanir á erlendu eignarhaldi í flugrekstri.

Hæstv. forseti. Í dag er ferðaþjónustan okkar helsta atvinnu- og útflutningsgrein. Þrátt fyrir það er hvergi kveðið sérstaklega á um rekstur í ferðaþjónustu í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri nr. 34/1991. Náttúra Íslands er ótvírætt auðlind og ber okkur að umgangast hana sem slíka. Land er auðlind. Nýting á því skiptir okkur máli. Eins og við þurfum að skilgreina landbúnaðarland þá þurfum við að skilgreina hvaða land fer undir ferðaþjónustu og starfsemi sem tengist henni.

Til að ná utan um þennan málaflokk tel ég nauðsynlegt að setja skorður á eignarhald bújarða, reglur um nýtingu og ákveðnar kröfur til búsetu. Það er hluti af þessu öllu saman og við þurfum að horfa á heildarmyndina. Við erum ekki á vertíð heldur í framtíðarverkefni. Við erum að ræða um framtíðaratvinnugrein sem við munum að hluta til byggja framtíðarsamfélag okkar á.