149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[15:56]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir þakka málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, sem og ráðherra fyrir umræðuna. Um ferðaþjónustu á Íslandi er ekki ofsagt að hún er orðin ein mikilvægasta atvinnugrein landsins. Hagstofan upplýsir okkur um að vægi hennar á árinu 2017 nemi í kringum 8,6% af landsframleiðslu og að á því ári hafi gjaldeyristekjur af greininni numið meira en 500 milljörðum kr.

Hér er komin til skjalanna ný atvinnugrein. Hún er komin til að vera. Hún hefur þegar lagt mikið af mörkum og mikils má vænta af henni í framtíðinni ef rétt er á haldið. Taka má undir með málshefjanda að eftir því sem ferðaþjónustan eykst að vöxtum má gera ráð fyrir að erlendar fjárfestingar aukist á komandi árum, t.d. í heilsutengdri ferðaþjónustu, uppbyggingu dýrra afþreyingarkosta og byggingu hágæðahótela, eins og hann getur um.

Spurt er: Er ástæða til að setja erlendum fjárfestingum í ferðaþjónustu reglur eða skorður og er það kleift? Um fjárfestingar í atvinnustarfsemi gilda almennar reglur um ferðaþjónustu rétt eins og aðrar atvinnugreinar. Í ferðaþjónustu eru nýleg dæmi, Marriott-hótelið við Hörpu og kaup erlendra fjárfesta á skuldabréfum í WOW-flugfélaginu sem kunna að hafa haft úrslitaþýðingu fyrir félagið þegar mikilvægt málefni kallaði á úrlausn.

Ráðherra vék í ræðu sinni að starfi á sviði reglna um kaup á landi og landgæðum. Það þarf að fara mjög rækilega yfir það mál. Við þurfum að ganga eins langt og okkur er unnt og nýta þau fordæmi sem eru fyrir í þessu efni til að gæta þess að erlendir aðilar nái ekki fótfestu á íslensku landi (Forseti hringir.) umfram það sem orðið er og býður heim augljósum hættum. Brýnt er að í því starfi sem ráðherra gat um komi fram raunhæfar tillögur sem verði grundvöllur stefnumörkunar og aðgerða í þessu efni.