149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[15:58]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu um ferðaþjónustuna. Þó að við ræðum hér einn anga af henni er sá angi vissulega mikilvægur hluti þeirrar grundvallaratvinnugreinar sem ferðaþjónustan er orðin, bæði sem innlend atvinnugrein og sem útflutningsatvinnugrein.

Ég vil leggja áherslu á það sem kallað hefur verið eftir um árabil, bæði af fólki og samtökum í greininni sjálfri og af okkur sem sitjum á Alþingi, en það er heildarstefna um ferðaþjónustu á Íslandi. Það er miður að þrátt fyrir ákall um skýra stefnumótun um ferðamál undanfarin ár bólar ekkert á henni. Ég vil því nota tækifærið og hvetja ráðherra til þess að ganga sem fyrst í það að koma fram með heildarstefnumótun um ferðaþjónustuna.

Inn í þá stefnumótunarvinnu og í því samhengi er æskilegt að skapa svigrúm fyrir erlenda fjárfestingu í starfsemi ferðaþjónustunnar svo fremi sem búinn er til skýr reglurammi utan um þær fjárfestingar en samhliða þeirri vinnu verði farið í stefnumótun um meðferð auðlinda. Það eru jú fleiri skilgreiningar á auðlindum fyrir utan hina hefðbundnu skilgreiningu sem við höfum m.a. deilt um í áratugi.

Ég er sammála hæstv. ráðherra þegar hún talar um að mikilvægast sé að vernda almannahagsmuni þegar kemur að nýtingu lands, óháð þjóðerni. Við skulum ekki vera um of að blanda þessu tvennu saman, þ.e. þjóðerni og nýtingu landsins eða uppkaupum á landi, því að þar geta Íslendingar líka átt í hlut eins og við höfum kannski rætt áður hér í þingsal.

Almennt séð er ég þeirrar skoðunar að erlend fjárfesting í ferðaþjónustu sé æskileg og að við reynum með skilgreindum og skýrum hætti að laða til okkar slíkar fjárfestingar sem verða þó að lúta skýrum reglum og lögum. Íslensk ferðaþjónusta er líka frábær vettvangur fyrir nýsköpun og þá sérstaklega ef hún gengur í takt við umhverfisvæna starfsemi sem skapar fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land með litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Ef vel er að staðið með skýrri ferðamálastefnu og skýrum laga- og regluramma um erlenda fjárfestingu getur erlent fjármagn inn í íslenska ferðaþjónustu aukið gæði hennar, þekkingu og framfarir í greininni; í grein sem er nú þegar orðin undirstöðuatvinnugrein landsins. Ég hvet því ráðherra til dáða í þeim efnum.