erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.
Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn þakka fyrir það að við ræðum þetta mál. Ég heyri á umræðunni að augljóslega er þörf á að ræða það. Ég fagna almennt fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, hún sýnir heilbrigði íslensks atvinnulífs. Ef erlendir aðilar óska eftir því að koma hingað og fjárfesta í fyrirtækjum þá sýnir það trú þeirra aðila á landi og þjóð.
Ferðaþjónustan er orðin stærsti atvinnuvegurinn okkar. Því finnst mér eðlilegt að erlendir fjárfestar þrífist þar eins og annars staðar. Ég sé reyndar ekki fyrir mér hvernig við gætum takmarkað eða bannað erlenda fjárfestingu í ferðaþjónustu. Í fyrsta lagi erum við aðilar að samningi sem kveður á um frjálst flæði fjármagns og í öðru lagi velti ég fyrir mér skilgreiningunni á ferðaþjónustu. Hvað er t.d. lundabúð? Er það verslun eða ferðaþjónusta? Veitingastaðir? Leiksýningar? Söfn? Svo mætti lengi telja.
Ég tel að erlendar fjárfestingar séu af hinu góða. Mig langar líka að minna á að á síðasta þingi samþykktum við endurskoðun á lögum um Íslandsstofu. Eitt af verkefnum Íslandsstofu er að laða erlenda fjárfestingu til landsins, upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um það. Einnig má minna á að við innheimtum umtalsverða fjármuni af atvinnulífinu og sendum aftur yfir til Íslandsstofu til að sinna því verkefni meðal annars.
Ef við ætlum að flokka þá sem eru fjárfestar sem auðmenn, eins og oft er talað um, er þá einhver munur á íslenskum auðmönnum og erlendum auðmönnum?
Að þessu sögðu vil ég þó taka fram að mér finnst umræða um landnýtingu allt annað mál. Það hvernig við nýtum landið og hvort landi sé skipt upp með óæskilegum hætti, þannig að fórnað sé möguleikum til matvælaframleiðslu eða gengið gegn þeirri mikilvægu (Forseti hringir.) hugmyndafræði að halda landinu í byggð, er mikilvægt umhugsunarefni og það eigum við að ræða. En að mínu viti tengist það ekki því hvort fjármagn (Forseti hringir.) sem fer í fjárfestingu í þessari mikilvægu atvinnugrein sé innlent eða erlent.