erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.
Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni þessa athyglisverðu og þörfu umræðu og þá vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hennar í umræðuna sem er þörf, ekki síst vegna þess að umfang ferðaþjónustu sem atvinnugreinar hefur aukist til muna og mjög hratt á alla mælikvarða, hraðast nú síðustu misserin.
Lengi vel var ferðaþjónustan, þegar kemur að útflutningstekjum, í þriðja sæti á eftir sjávarútvegi og samanlögðum útflutningi á áli og kísli og svo númer tvö á eftir sjávarútvegi en skilar nú mestum gjaldeyristekjum og ekki verður annað séð en að svo verði áfram eins og hv. málshefjandi kom inn á.
Eftir því sem atvinnugreinin dafnar og umfangið eykst í grunnþjónustu, því sem við getum kallað kjarnaþjónustu, flutningi, gistingu, veitingum og afþreyingu, er viðbúið að fjárfestar sjái hagnaðarvon, hérlendir eins og hingað til sem og erlendir. Það er mikilvægt að laða að erlent fjármagn og beinlínis æskilegt að í stærri og fjárfrekari verkefni komi inn erlent fjármagn. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, í því felst meira en bara að laða að fjármagn. Okkur hættir til að horfa á hagrænu áhrifin en þetta snýst um tengsl, hugvit, framfarir og að læra af öðrum þjóðum sem hafa reynt það sem ferðaþjónustan leggur á, bæði jákvætt og neikvætt. Þess vegna er mjög mikilvægt að fjárfesting sé blönduð við innlent fjármagn. Ég tek jafnframt undir það sem hefur komið fram í umræðunni, það þarf að tryggja að arðurinn af fjárfestingunni fari í áframhaldandi uppbyggingu, það sem við getum kallað sérstöðu þjóðarinnar.
Þegar kemur að landgæðum og kaupum á landi hvet ég hæstv. ráðherra í því verkefni að skýra reglur er varða afnotarétt og gjald af landi (Forseti hringir.) í almannaeigu og að fylgja eftir vinnu nefndar sem snýr að kaupum á landi.