erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.
Virðulegi forseti. Mér finnst þetta áhugaverð umræða. Ég er þeirrar skoðunar að erlend fjárfesting sé almennt góð af sömu ástæðum og hæstv. ráðherra fór yfir það áðan, að það komi ekki bara fjármagn inn í hagkerfið heldur þekking, hugvit, viðskiptatengsl, reynsla og ýmislegt þess háttar. Mér sýnist ekki vera mikill ágreiningur um þennan punkt í þessum þingsal sem er í sjálfu sér gott.
Það sem mér finnst áhugavert hins vegar þegar kemur að ferðaþjónustu almennt er að mér finnst stundum vandamálin koma upp af undarlegum ástæðum, eins og t.d. þeirri að við áttum ekki að geta fjármagnað það að byggja upp innviði vegna þess að okkur hafi ekki tekist að finna einhverja leið til að rukka útlendingana meira, nokkuð sem virðist hafa tafið málið heillengi. Þá á ég auðvitað við gjaldtökuna sem hefur verið rifist um í mörg ár.
Sömuleiðis í sambandi við réttindi og eignarréttindi yfir landi tekur maður skyndilega fyrst eftir einhverri gusu af áhyggjum þegar það eru útlendingar sem ætla að fara að kaupa eitthvert land. Ef við viljum tryggja að íslenska þjóðin hafi t.d. vald yfir auðlindum sínum og að ekki sé einfaldlega hægt að kaupa auðlindirnar upp, kaupa upp eitthvað sem Ísland þarf, er það óháð því frá hvaða landi viðkomandi er sem kaupir landið. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þegar einhver kaupir auðlind og ákveður að einoka hana sé það bara slæmt ef útlendingur á í hlut. Mér þykir ekkert skárra að Íslendingur geri það.
Hér var komið aðeins inn á það að við gætum verið að selja frá okkur landið. Ísland hefur þjóðréttarlegt vald yfir Íslandi, jafnvel þótt hver einasta landspilda á landinu yrði seld útlendingum. Við skulum hafa það á hreinu, ekki að ég sé að leggja til að við ættum að fara í þá átt en það er ekki þannig að með því einu að útlendingur eigi eitthvað sé það þar með komið úr höndum íslenska lýðveldisins. Það er ekki þannig.
Mér finnst áhugavert hvernig svona hlutir breyta umræðunni. Umræðan er alveg mikilvæg og kannski verður þetta til þess að við förum skrefinu nær í að ná meiri langtímalausn í deilunni um það hvernig eigi (Forseti hringir.) að fara með hluti eins og veiðiréttindi, auðlindir og land, hvernig eigi að tryggja byggðasjónarmið þrátt fyrir að einhverjir svokallaðir auðmenn eigi stór lönd o.s.frv. Spurningin um hvort það sé útlendingur eða Íslendingur finnst mér ekki vera aðalatriði í því samhengi.