erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.
Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir að vekja máls á þessu brýna málefni. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið óvæntur og fordæmalaus á síðustu tíu árum svo engan óraði fyrir.
Fjárfesting í greininni hefur á undanförnum þremur árum numið 60–80 milljörðum árlega sem er þrefalt eða fjórfalt það sem var á árabili þar á undan. Þó að við séum hér að tala um erlendar fjárfestingar almennt, þ.e. í hótelum, flugsamgöngum, flutningaþjónustu og slíku, er meginþunga umræðunnar beint á fjárfestingar erlendra aðila á lóðum og jörðum.
Það hefur farið hátt í fjölmiðlum á undanförnum misserum þegar erlendir auðjöfrar hafa keypt upp heilu sveitirnar hér á landi til að skapa sér aðstöðu í kringum ýmis hlunnindi, svo sem veiði eða til að njóta kyrrðar í mannfæð íslensku sveitanna.
Herra forseti. Það er ekki boðlegt að ekki séu settar skorður við slíkum stóruppkaupum erlendra aðila á landi svo heilu sveitirnar eða sýslurnar eigi það á hættu að eignarhald þeirra sé í höndum fjarlægra, erlendra auðjöfra. Það er nauðsynlegt að setja við þessu eðlilegar skorður, svo sem búsetuskilyrði eins og þekkist sums staðar í nágrannalöndunum, og binda það þá við ákveðna stærð lands og hvort um sé að ræða náttúruperlur, einhver sérstök hlunnindi eða búskaparmöguleika sé þá að finna á viðkomandi landi.