149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[16:13]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka öllum sem hér hafa tekið til máls fyrir og sérstaklega hæstv. ráðherra. Hann sagði sem svo að hann sæi ekki þörf á takmörkun á erlendum fjárfestingum í bili og það er sennilega í lagi. Ég get alveg tekið undir það. Hann og fleiri hér ræddu líka um að beina sjónum að auðlindum öðru fremur, auðlindum í jörðu, hlunnindum og öðru. Það er líka hárrétt sem og með uppkaup lands.

Ég vil þó benda á að það getur skipt verulegu máli hvort fjárfestir er innlendur eða erlendur, einfaldlega vegna þess að til eru gríðarlega margir erlendir fjárfestar sem hafa óskaplegt afl miðað við þá íslensku. Það getur skipt máli. Við sjáum það í löndum þó að þau séu fjarri okkur eins og í Austur-Afríku þar sem Kínverjar hafa keypt upp gríðarlega mikið af landi og reyndar ferðaþjónustu að hluta til líka, vegna matvælaframleiðslu fyrir sjálfa sig og vegna þess að þeir hafa áhuga á því að græða peninga. Við gætum ekki mælt okkur við slíkt.

Þegar kemur að öðru sem ég kalla fjölþættni getur líka skipt máli hvort þessir öflugu fjárfestar koma inn eða ekki vegna þess að þeir geta ýtt undir of mikinn og hraðan vöxt einnar atvinnugreinar. Við getum kallað það ferðaþjónustu, afþreyingu eða hvaðeina sem ýtir undir þá einhæfni sem við viljum ekki. Við erum fjölþættnisamfélag, viljum stunda nýsköpun eða aðrar atvinnugreinar en ferðaþjónustu, þannig að við þurfum líka að gæta að þessu.

Þegar öllu er á botninn hvolft er erlend fjárfesting hvorki vond né góð. Það fer bara eftir því hver fjárfestir, í hverju er fjárfest, hve mikið og hvernig. Það er það sem skiptir öllu máli. Eins og hér hefur verið kallað eftir er kominn tími á (Forseti hringir.) innlenda, opinbera ferðaþjónustustefnu.