149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[16:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það er þrennt sem ég vil koma inn á í þessari mikilvægu umræðu. Það eru hin félagslegu þolmörk ferðaþjónustunnar, hönnun mannvirkja á ferðamannastöðum og nauðsyn þess að auka láglendislandvörslu verulega.

Það er mikilvægt að Íslendingar hafi jákvætt viðhorf til ferðaþjónustunnar. Jákvætt viðhorf heimamanna til ferðaþjónustu er lykilatriði fyrir sjálfbærni í þróun í ferðaþjónustu og grundvallarþáttur í að skapa ferðamönnum gott umhverfi. Það er auk þess nauðsynlegt þegar skapa á jákvæða ímynd áfangastaðar og jákvætt umtal. Samskipti heimamanna og ferðamanna hafa áhrif á ánægju ferðamanna og endurteknar heimsóknir.

Í ferðamálafræðum er það almennt viðurkennt að viðhorf heimamanna til ferðaþjónustu sé lykilatriði fyrir sjálfbærni og velgengni greinarinnar. Ísland er m.a. markaðssett erlendis sem vinaleg þjóð. Samkvæmt könnunum á meðal erlendra ferðamanna á Íslandi er fólkið og gestrisnin annar helsti styrkleiki íslenskrar ferðaþjónustu á eftir náttúrunni.

Markaðssetning áfangastaða verður að taka tillit til viðhorfs heimamanna og markaðsaðilar verða að átta sig á því að þegar þeir beina ferðamönnum á ákveðin svæði, t.d. í svokölluðum norðurljósaferðum, beina þeir umferð og fjölda ferðamanna inn á svæði sem oft og tíðum þola ekki álagið og valda jafnvel heimamönnum pirringi af þeim sökum.

Ábyrgð ferðaþjónustuaðila er hér mikil og ég fullyrði hér að í allt of mörgum tilfellum sýna þeir ekki nægilega tillitssemi gagnvart heimamönnum. Ég vil taka dæmi í þessum efnum. Á Vatnsleysuströnd er lítið dreifbýli hér skammt frá höfuðborgarsvæðinu. Þar er ljósmengun lítil og staðurinn heppilegur til að skoða norðurljósin þegar svo ber undir. Allt að fimmtán 60 manna rútur frá rútufyrirtækjum í Reykjavík aka þarna um á kvöldin í norðurljósaferðum. Vegurinn sem er mjór og viðkvæmur hefur látið mikið á sjá vegna þessa. Sumar þessar rútur stoppa í vegkantinum og hleypa farþegunum út í myrkrið. Þarna geta því verið allt að 900 manns að kvöldi en íbúar á Vatnsleysuströnd eru undir 100.

Hver ferðamaður greiðir rúmar 6.000 kr. fyrir ferðina þannig að hvert kvöld gerir rúmar 5 milljónir króna í vasa rútufyrirtækja. Því miður er það þannig að þessi fyrirtæki skilja ekkert eftir sig fyrir heimamenn og valda jafnvel hættu í umferðinni á þessu svæði.

Það er grundvallaratriði að nýting ferðaþjónustu og útivistar sé í samráði við heimamenn og gangi ekki á lífsgæði þeirra og verðmæti, spilli ekki náttúru og menningarsögulegum minjum og þar með aðdráttarafli Íslands sem áfangastaðar.

Herra forseti. Ég vil því næst víkja aðeins að mannvirkjum á ferðamannastöðum og einkum hönnun þeirra. Mannvirki eru nauðsynleg á ferðamannastöðum til að vernda náttúru og menningarminjar. Þau verða að falla vel að landslagi, viðkomandi minjum, gildi staðar, staðaranda og styðja við upplifun gesta. Á þessu hefur því miður verið misbrestur að mínu mati. Ég tel t.d. að gestastofan í Dyrhólaey, sem kostaði rúmar 100 milljóna króna, falli illa að því fallega landslagi sem þar er, sérstaklega hvaða staðsetningu varðar.

Ég hef rætt þetta áður hér en í þessu máli var ekkert samráð haft við heimamenn. Þessi mannvirki þurfa að hafa góða endingu og litla viðhaldsþörf. Þau eiga að bæta upplifun gesta en jafnframt þarf að gæta þess að náttúran, minjar og heildarsvipmót landsins séu varin eftir fremsta megni.

Gleymum því ekki að aðkomu- og gönguleiðir að stöðunum eru hluti af minnisstæðari upplifun gesta. Vel hefur tekist til í þessum efnum t.d. hvað varðar aðkomu að Bláa lóninu, svo dæmi sé tekið.

Herra forseti. Að lokum vil ég koma stuttlega inn á mikilvægi þess að láglendislandvarsla verði aukin árið um kring, enda er það brýnt öryggis- og náttúruverndarmál. Á sama tíma og ferðamönnum fjölgar, eins og t.d. á Reykjanesi fæst ekki fjármagn fyrir landvörslu þar allt árið en um 130.000 ferðamenn komu á Reykjanesið á síðasta ári. Og ef við tökum dæmi úr Skaftárhreppi er þar mjög vinsæll viðkomustaður ferðamanna, Fjaðrárgljúfur, sem er á náttúruminjaskrá. Á síðasta ári komu þangað 300.000 ferðamenn. Svæðið er undir miklu álagi og hefur sveitarfélagið óskað eftir því að landvarsla yrði aukin vegna ágangs og til að auka öryggi gesta en því miður talað fyrir daufum eyrum. Fjaðrárgljúfur er einn af þessum svokölluðu sjálfskipuðu áningarstöðum sem enginn er að hugsa um. Þessu verður að breyta áður en í óefni er komið og mikil verðmæti spillast sökum ágangs.