149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[16:41]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka vinnuhópnum sem vann þessa skýrslu fyrir hans vinnu, vönduð vinna að einhverju leyti, og eins þakka ég ráðherranum fyrir að flytja þessa skýrslu munnlega. Auðvitað þurfti að flytja þessi orð í fyrra. En það er nú svo. Mér er málið skylt vegna þess að ég hafði frumkvæði að þessari beiðni og er ákaflega ánægður með að þetta skuli þó hafa tekist, bæði skýrslan og síðan þessar umræður í dag.

Það er fordæmalítill vöxtur í ferðaþjónustu og allir vita að honum fylgir álag á náttúruna, á samfélagið, á efnahagsmálin, hefur ruðningsáhrif á aðra atvinnuvegi. Þegar maður horfir yfir sviðið er ekki hægt að segja að íslensk ferðaþjónusta sé sjálfbær. Það eru hlutar sem eru það vissulega, ákveðnir þjónustugeirar, tiltekin verkefni, rekstur tiltekinna fyrirtækja — mörg ljós í dimmunni, en samt ekki nógu víða. Það er fjöldi staða þar sem náttúruálag er of hátt. Það eru samfélög eða staðir þar sem ferðaþjónustan yfirgnæfir mestalla aðra starfsemi og er farin að breyta samfélögum í óþökk, vil ég telja, verulegs hluta íbúa. Það snertir oft t.d. bara húsnæðismál. Þá er hægt að minna á að óheftur vöxtur eða mjög hraður eykur hættu á einhæfu atvinnulífi og efnahagslegu ójafnvægi. Niðurstaðan er sú að við þurfum að gera betur til að ná sjálfbærri ferðaþjónustu.

Sjálfbærninni fylgir svo þetta stóra orð, þolmörk. Við þekkjum þetta úr útgerðinni, fiskveiðunum. Það er auðvitað alkunna að allar nytjar í náttúrunni og eins samfélagsnytjar, ef við getum notað það orð, hafa sín takmörk. Það er löngu tímabært að hyggja að yfirliti yfir þolmörk í ferðaþjónustu hér á landi með virkum hætti, ekki einungis með umræðum heldur virkum hætti. Því var óskað eftir skýrslunni og ég vil taka undir orð hæstv. ráðherra að þetta er vinna sem þegar er hafin á nokkrum sviðum.

Þolmörk sem slík varða einstaka staði sem sumir geti verið í einkaeign eða opinberri eigu eða þjóðlendur. Ég nefni sem dæmi annars vegar Kerið í Grímsnesi og hins vegar Geysi. Þetta geta jafnvel verið landsvæði á forræði sveitarfélaga eins og Reykjadalur fyrir innan Hveragerði. Þetta geta líka verið þjóðgarðar og friðuð svæði, ég nefni Þingvelli sem dæmi.

Ef við ætlum að fara að ákvarða þolmörk er það ákveðið og flókið ferli, allt frá því að horfa á einn lítinn stað yfir í að horfa á mjög stór landsvæði. En þetta er kleift og það er hægt að gera þetta um allt land.

Það sem fylgir hugtakinu þolmörk er aðgangsstýring. Það hlýtur að vera bein afleiðing af því. Hæstv. ráðherra rakti forsendur aðgangsstýringar ágætlega áðan í fjórum liðum. Ég ætla ekki að fjölyrða um þær. Þolmörkin eru svo í raun og veru ítala. Það er sem sagt ákveðin, fræðilega ákvörðuð ítala, svo og svo mikill fjöldi gesta á dag eða viku eða hvað við viljum, sem er svo endurskoðuð í ljósi reynslu með jöfnu millibili. Þessa ítölu þurfum við að fara að skoða mjög skilmerkilega á mörgum svæðum og að lokum fyrir landið allt.

Það eru til stjórntæki fyrir aðgangsstýringar, t.d. nefnir skýrslan TCC, ákveðið fyrirbæri sem hefur verið þróað í Evrópusambandinu og heitir Tourism Carrying Capacity Assessment Methodology, svo ég fái að sletta ensku, eins konar aðferðafræði burðarþolsmats. Þessi aðferð er lögð til sem leið til aðgangsstýringar.

Þetta fyrirbæri, þ.e. aðgangsstýring, tengist landsskipulagi, áfangastaðaáætlun eða DMP sem verið er nú að vinna með fulltingi markaðsstofa landshlutanna. Þetta tengist auðvitað framkvæmdamati á þolmörkum vítt og breitt um land á þessum ólíka skala sem ég var að nefna.

Aðgangsstýring krefst fjölþættrar samvinnu, allt frá einkaaðilum og sveitarfélögum og ríkisvaldi til hagaðilanna í greininni. Stýringin krefst aðferða við aðgangsstýringuna sjálfa þegar búið er að ákvarða ítöluna, hvernig hún verður haldin, þ.e. einhvers konar eftirlit. Það er hægt að hugsa sér takmörkun bílastæða. Það er hægt að hugsa sér bókstaflega inngangsport, inngangsdyr, eins og maður sé að fara í bíó o.s.frv.

Þetta eru allt hlutir sem þarf að ræða og ákvarða á endanum en það er alveg ljóst að virk aðgangsstýring krefst þessara hluta. Við þekkjum þetta ákaflega víða frá útlöndum. Enn fremur krefst aðgangsstýring aðferða til að úthluta fyrirtækjum í ferðaþjónustu aðgangi að stað eða landsvæði. Þetta getur verið útboð, getur verið eitthvað annað. Allt þetta á eftir að ræða vandlega. Allt þetta á eftir að ákvarða.

Þegar kemur að því ferli, þá er næsta verkefni að ræða hvernig þetta innleiðingarferli á landsvísu, hægt og bítandi, verður best viðhaft hér á landi. Hver stýrir? Hvernig er þetta gert? Hver vinnur grunnvinnuna? Það er búið að vinna hana að sumu leyti. Það er til töluvert af þolmarkarannsóknum á Íslandi. Þetta er fyrir mér ferli sem mun taka einhver ár, heiðarlega sagt.

Viðbrögðin við orðum um aðgangsstýringu og þolmörk eru stundum fremur neikvæð. Mönnum finnst þetta vera harkaleg og óyndisleg viðbrögð. En hvað gerist þegar samfélag með 350.000 mönnum stendur frammi fyrir svo og svo mörgum milljónum ferðamanna? Við vitum jú að það hefur hægt á fjölguninni en hún er engu að síður til staðar, 2, 3, 4, 5% á ári, og við sjáum fyrir okkur núna 2,5 milljónir ferðamanna. Hvað með 3 eða 3,5 milljónir? Eigum við að nefna töluna 3,8 sem er ferðamannafjöldinn í Nýja-Sjálandi? Þar búa 5 milljónir manna.

Þessi viðbrögð, sem mörgum finnst harkaleg og óyndisleg, við milljónum ferðamanna eru fullkomlega eðlileg fyrir okkur sjálfum. Og þau eru ferðamönnunum til góðs því ferðamenn eru ekki komnir hingað til að standa í langri biðröð sem nær frá Hakinu og alla leið niður á Þingvelli eða frá bílastæðum fyrir ofan Gullfoss og alla leið niður á Gullfoss og það er gengið áfram með snigilshraða. Menn eru ekki komnir hingað til þess. Menn segja hér oft í góðu: Það er nóg af landsvæði og við getum stýrt ferðamönnum og opnað þetta og hitt svæðið. Það er vissulega rétt. En við megum ekki gleyma því að fólk er komið hingað til þess að sjá vissa hluti og upplifa vissa þætti íslenskrar náttúru og menningar sem við getum ekki bannað. Það eina sem við getum gert er að viðhafa þessa aðgangsstýringu.

Það sem ég vil leggja áherslu á líka er að þetta snýst um gæði ferðaþjónustu og ekki síst öryggi í ferðaþjónustu. Aðgangsstýring snýst ekki síst um það.

Ég nefndi það áðan að þetta tíðkast víða og ég ætla bara að nefna tvö dæmi. Yosemite-þjóðgarðurinn er heimsfrægur. Þar koma 5 milljónir gesta á ári. Þar mega 19.000 manns koma á dag. Hann er stór. Við getum speglað þetta yfir á Þingvelli sem er 90 km2 áður en til stækkunar kemur. Þar koma 1,5 milljónir gesta og nú getum við spurt: Eigum við að setja þar sams konar ítölu og hver verður hún þá? Á hverju á hún að byggjast? Eða eigum við að taka Silfru sjálfa, gjána sem þarna er og er vinsæl til köfunar? Þangað fara núna 56.000 gestir á ári. Eigum við að hafa töluna þá 100.000, eða eigum við að hafa hana 80.000 eða eigum við loka gjánni algjörlega? Þetta eru allt saman spurningar sem við þurfum að svara. Ef fundin er ítalan 62.000 þurfum við að hafa kerfið og eftirlitið í lagi, búa til leiðir fyrir ferðaþjónustufyrirtæki til að nýta sér einhver tímamörk hverju sinni og sjá svo til að þetta verði eftir haft.

Annað dæmi sem ég ætla að nefna er einhver þekktasta gönguleið í heimi, Milford Track á Nýja-Sjálandi, sem er þeirra Laugavegur: Þar mega 90 manns á dag byrja gönguna. Þetta eru nokkrar dagleiðir. Þið sjáið í hendi ykkar að ef til vill ættum við að gera þetta sömuleiðis á íslenska Laugaveginum.

Mín niðurstaða er sú að þessi vinna er hafin. Það þarf að efla hana, þarf að skýra hana og það þarf að ná henni í höfn áður en langt um líður.