149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[16:51]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Eins og hér hefur verið rakið ráðast þolmörkin í ferðaþjónustu af náttúrulegum þolmörkum, þolmörkum innviða og samfélagslegum þolmörkum. Ef við förum í gegnum þetta þá hefur náttúran sín takmörk. Þau eru mikið til óþekkt vegna þess að þau hafa ekki verið rannsökuð með fullnægjandi hætti, en klárlega er gengið nærri þeim ansi víða. Það er vissulega sagt að fleiri rannsókna sé þörf. Við lesum það í samhengi við Parísarviðmiðin og koltvísýringsálag en ekki bara útlitsleg einkenni helstu ferðamannastaða. Það þarf að taka þetta mjög heildrænt fyrir. Í því samhengi er þessi skýrsla „of lítið, of seint“.

Innviðir víða um land eru heldur ekki nægilega góðir. Það mun hugsanlega skána með tímanum með nýrri í samgönguáætlun og frekari innviðafjárfestingum. Það er mikilvægt í því samhengi að uppsöfnuð viðhaldsþörf á þjóðvegum og öðrum samgöngumannvirkjum verði unnin upp sem fyrst. Þessi skýrsla og sú vinna sem farin er af stað í samgönguáætlun eru þó „of lítið, of seint“. Og svo loks samfélagslega álagið. Það er ljóst að mikill fjöldi ferðamanna breytir samfélaginu, að sumu leyti til góðs, að öðru leyti til hins verra.

Margir hafa t.d. tekið eftir því að íslenskan er á undanhaldi á veitingastöðum víða um land. Það er bæði vegna breytinga á málkunnáttu starfsmanna en ekki síður vegna þess að vel íslenskumælandi starfsmenn komast í kynni við fleiri enskumælandi viðskiptavini á hverjum degi og nota því ensku að staðaldri. Það er einn af fjölmörgum þáttum sem hefur áhrif á upplifum heimamanna af því álagi sem þeir verða fyrir.

Í því samhengi er þessi skýrsla í rauninni „of lítið, of seint“. Ekki er tekist á af miklum krafti við þau vandamál sem eru til staðar í þessari skýrslu. Í rauninni er þetta vinna sem hefði átt að fara af stað fyrir mjög löngu síðan.

En nú er uppgangur. Mögulega verður til einhvers konar stöðugleiki á einhverjum stað eftir einhver ár eftir því sem fólki fjölgar sem heimsótt hefur Ísland. Þorri ferðamanna sem kemur hingað verður nýtt fólk sem aldrei hefur ferðast, í bland við fólk sem kemur aftur til landsins. Í rauninni er sá uppsafnaði áhugi sem er á Íslandi kannski að verða búinn, mögulega.

Það er ljóst að stöðugleikinn verður aldrei í tveimur eða þremur milljónum ferðamanna á ári, en kannski gæti hann verið einhvers staðar í kringum eina milljón. Þá miða ég út frá fjölgun ferðamanna almennt í heiminum.

Við ættum því að ganga út frá því að ferðaþjónustuna sé komin til að vera en að vægi hennar sem hlutfall af heildarframleiðslu þjóðarinnar muni minnka smám saman með tímanum. Við verðum að hafa í huga að ferðaþjónusta býður að jafnaði upp á lágframleiðnistörf. Til að auka framleiðni þarf að fara þá leið sem Þórarinn Ævarsson, forstjóri IKEA, hefur gagnrýnt að undanförnu, þ.e. að keyra upp verð upp í himinhæðir. Það virkar vissulega en það er ekki sjálfbært. Það mun þurfa að verða einhvers konar breyting í átt að veikari krónu og lægra verði á ferðaþjónustu og veitingarekstri til þess að viðhalda stöðugleika í greininni til framtíðar. Þá verður að vera byggt inn í viðskiptaáætlanir að framleiðnin verður aldrei byggð á 20% vexti ár frá ári, eins og verið hefur síðustu ár.

Ég nefni þetta í samhengi allra þessara þolmarka, vegna þess að það er algjörlega rétt sem hæstv. ráðherra sagði í inngangi sínum, að stjórn á aðgengi er lykilatriði. Það þarf ekki að vera bein kvótasetning sem slík, heldur lausleg en markviss stýring eftir einhverju mati, raunverulegu og góðu mati á álagsþoli á hverjum stað. Þó svo að þessi skýrsla sé vissulega „of lítið, of seint“ er lykilatriði að við förum vel í þessa vinnu núna og klárum að meta hvern stað fyrir sig og komum einhvers konar ferli af stað, eins og hæstv. ráðherra hefur vissulega boðað. Það er mjög jákvæð stefna.

Hluti af lausninni er, eins og komið hefur fram í máli annarra hv. þingmanna, að sjálfsögðu að efla aðra landshluta en suðvesturhornið, t.d. með bættum millilandasamgöngum til Akureyrar og Egilsstaða. Það þarf líka að byggja upp innviðina. Huga þarf að náttúrunni og samfélaginu.

Síðast en ekki síst þurfum við að skoða þetta í samhengi við það að efla aðra atvinnuvegi á Íslandi þannig að mikilvægi ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúið verði hlutfallslega minna þótt krafturinn í ferðaþjónustu verði jafn mikill. Ef hún verður minni prósenta af heildarþjóðartekjum okkar verður ekki jafn sársaukafullt að taka erfiðar ákvarðanir sem við munum þurfa að taka varðandi náttúruvernd og aðra hluti þegar þeir koma upp, vegna þess að ef það kæmi til umræðu í dag að loka einhverjum mikilvægum ferðamannastað í einhverja daga væri það í rauninni ákveðinn heimsendir. Við megum ekki við því.

Við þurfum að passa okkur á því að verja náttúruna og samfélagið og allt annað fyrir ágangi mannsins.