149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[17:10]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Sú skýrsla sem hér er til umfjöllunar, og rétt er að þakka frumkvöðlum þeirrar vinnu fyrir, gefur gott tækifæri til að ræða ýmis málefni sem varða ferðaþjónustuna, rekstrarumhverfi almennt, styrkleika og veikleika og hvernig best sé að halda á spilunum til frambúðar þannig að þessi mikilvæga atvinnugrein geti vaxið og dafnað í áframhaldandi sátt og samlyndi við íbúa og náttúru landsins.

Tímapunkturinn núna er hentugur í ljósi þess að það er farið að hægja á vexti ferðaþjónustunnar. Vöxturinn sem við höfum upplifað síðustu ár, þar sem óhætt er að segja að þessi atvinnugrein hafi dregið vagninn fyrir íslenskt hagkerfi, hefur verið gríðarlega mikill. Fjölgun ferðamanna hefur verið svo mikil að það hefur verið deginum ljósara að fjöldinn gæti ekki verið sjálfbær til lengri tíma.

Það er líka full ástæða til að hafa varann á þegar atvinnugreinar vaxa svona hratt. Við höfum séð það áður að það getur valdið vandræðum þegar síðan slær í bakseglin, þó ekki sé nema lítillega, t.d. þegar horft er til aukinnar skuldsetningar greinarinnar samhliða auknum fjárfestingum, áhættu fjármálakerfisins, sem er þegar orðin töluverð gagnvart greininni, og ekki síður hvaða kerfislæga áhætta getur mögulega legið innan greinarinnar. Þar má t.d. nefna flugfélögin okkar tvö sem eru lykilaðilar í farþegaflutningum til og frá landinu. Við höfum nefnilega áður farið flatt á því að spila bara sókn og gæta ekki að því að byggja upp varnarleikinn.

Það er staðreynd að töluverð áhætta felst í því fyrir íslenskt efnahagslíf þegar vöxtur er fyrst og fremst borinn uppi af einni atvinnugrein og því mikilvægt að stjórnvöld og til þess bærir aðilar leggist í greiningarvinnu hvað varðar helstu áhættuþætti og hvernig best sé að bregðast við. Það er líka ljóst að markmiðið fyrir heildarhagsmuni lands og þjóðar er ekki endilega viðvarandi gríðarleg fjölgun ferðamanna frá ári til árs heldur hversu miklum raunverðmætum ferðaþjónustan í heild skilar til þjóðarbúsins. Flestar þær úttektir sem unnar hafa verið á stöðu greinarinnar hafa einmitt lagt áherslu á mikilvægi þess að horfa ekki til magns heldur gæða, þ.e. hvers konar ferðamenn við viljum fá til landsins.

Sú mikla áhersla sem hefur verið á fjölgun ferðamanna, óháð því hverju þeir skili, er líkleg til að setja mikinn þrýsting á þolmörk náttúru og íbúa landsins gagnvart ferðaþjónustu eins og við erum að upplifa nú og skýrslan sem hér er rædd kemur vel inn á.

Til að fá skýra mynd af stöðunni þarf sem sagt mikla og góða greiningarvinnu og í kjölfarið skýra stefnu og aðgerðir. Líkt og aðrar af okkar helstu atvinnugreinum byggir ferðaþjónustan fyrst og fremst á náttúruauðlindum þjóðarinnar sem eru eign núlifandi kynslóða og þeirra sem koma á eftir okkur. Við þurfum að vanda vel til verka þegar við stöndum frammi fyrir því að byggja upp til framtíðar þessa atvinnugrein enn frekar í sátt við fólk og náttúru. Þar er aðgangsstýringin mikilvæg.

Það eru auðvitað vonbrigði, herra forseti, að þrátt fyrir áralanga umræðu um aðgangsstýringu, hvort henni skuli beitt og þá með hvaða hætti, hefur það engu skilað. Ráðuneyti ferðamála undir samfelldri forystu Sjálfstæðisflokksins hefur ekki getað tekið ákvörðun um hvað skuli gera í þessum efnum, hvort heimila beri gjaldtöku á vinsælustu ferðamannastöðum í eigu ríkisins til að stýra álagi og hvort nota eigi komugjöld, náttúrupassa eða annað form gjaldtöku til að stýra aðgengi og draga úr álagi einstakra ferðamannastaða og um leið fjármagna ýmis mikilvæg verkefni svo sem um vernd og uppbyggingu innviða á einstökum áfangastöðum, uppbyggingu samgöngukerfis, aukna fjölbreytni í menningarþjónustu o.s.frv.

Við vitum sem er að ferðamennirnir sem koma hingað hafa áhuga á náttúrunni okkar en þeir koma líka vegna menningarinnar. Þeir hafa áhuga á matnum okkar og þeir hafa áhuga á sögu þjóðarinnar. Í öllum þessum þáttum eigum við töluvert inni hvað varðar upplýsingamiðlun til ferðamanna og uppbyggingu innviða.

Á fyrri hluta síðasta árs bárust fréttir af því að eitt stærsta samhæfða þróunarverkefni í íslenskri ferðaþjónustu væri hafið, gerð svokallaðrar áfangastaðaáætlunar, sem á ensku kallast Destination Management Plan. Þetta væri í burðarliðnum í öllum landshlutum og gert var ráð fyrir því að áætlanagerð lyki á árinu 2018. Þá yrðu tilbúin ítarleg gögn um stöðu mála í hverjum landshluta, sameiginleg markmið sem fólk væri sammála um að stefna að í málefnum ferðaþjónustunnar og skilgreindar leiðir og verkefni sem þyrfti að vinna til að ná þeim markmiðum. Hæstv. ráðherra fór hér ágætlega yfir málið áðan.

Ég nefni þetta sérstaklega sem dæmi um þá miklu vinnu sem unnin hefur verið í svona málum síðustu ár vítt og breitt um landið, m.a. við rannsóknir þolmarka. Við getum vissulega alltaf gert betur þar og við látum ekki staðar numið nú. En sláandi niðurstaða skýrslunnar varðandi þolmörk ákveðinna fjölfarinna ferðamannastaða gefur hins vegar mjög skýr skilaboð um að nú er runninn upp tími ákvarðana og aðgerða, a.m.k. samhliða hinni vinnunni.

Mig langar til að ljúka máli mínu hér með því að nefna sérstaklega tvennt sem mér þykir mikilvægt í því samhengi sem mál ferðaþjónustunnar eru rædd hér í. Annars vegar það að nú er að störfum nefnd á vegum umhverfisráðherra um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Ferðaþjónustan hefur þar eðlilega mikilla hagsmuna að gæta sem og reyndar allir landsmenn. Það er ljóst að niðurstaða þessa verkefnis mun hafa áhrif á framtíðarskipulag atvinnugreinarinnar og það er mikilvægt að raddir þeirra aðila sem starfa innan ferðaþjónustunnar heyrist í þessari vinnu.

Hitt er hversu mikil áhrif samsetning ferðamanna sem koma hingað til landsins hefur á þróun ferðaþjónustunnar og afkomu. Í því sambandi langar mig að nefna nýlega grein Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, þar sem koma fram áhugaverðar upplýsingar um þessi mál. Í sumar hefur hlutur Bandaríkjamanna í hópi ferðamanna til Íslands aukist mikið á kostnað hlutar Þjóðverja og annarra af svokölluðum eldri kjarnamörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Áhrifin af svona breytingu eru margvísleg og stafa m.a. af því að þjóðir hafa mismunandi menningu, þær eru mismunandi næmar fyrir verðlagi, skipulag sumarleyfa í þessum löndum er ólíkt og svo mætti lengi telja. Jóhannes Þór tekur sem dæmi að Þjóðverjar taka yfirleitt flestar gistinætur í heimsókn sinni, en hlutur þeirra er að minnka miðað við síðustu rannsókn eða síðustu tölur. Þeir taka gjarnan átta til tíu gistinætur í heimsókn sinni en Bandaríkjamenn, sem er hlutfallslega að fjölga, taka færri, fjórar til fimm.

Þetta hefur afleiðingar. Þetta þýðir að Þjóðverjar, sem eru gjarnir á að ferðast í skipulögðum hópferðum, eru líklegri til að ferðast meira um landið, taka tíma til að fara út af hringveginum, nálgast nýja staði og þjónustu á meðan bandarískir ferðamenn taka styttri ferðir — ástæðan er líklegast sú að þeir hafa almennt styttri sumarleyfi. Þeir ferðast frekar á eigin vegum, eru líklegri til að aka sjálfir og eru því ólíklegri til að þiggja þjónustu fyrirtækja utan alfaraleiða. Þeir ferðast hraðar um, skoða hlutina hratt og nýta síður tækifærin til nýrra ævintýra á fáfarnari slóðum.

Í stuttu máli má segja að samsetning ferðamanna sem koma hingað hafi áhrif á afkomu fyrirtækja og áhrif á afkomu byggðarlaga. Það er óhjákvæmilegt að þetta þurfi að skoða þegar verið er að ræða framtíðarstefnumótun í ferðaþjónustu. Það er mikilvægt að þessar breytur séu teknar með í reikninginn. Hvaða sambland af ferðamönnum frá mismunandi löndum og menningarheimum er æskilegast fyrir okkur, fyrir náttúruna okkar, fyrir menninguna okkar? Hvernig náum við þeirri samsetningu? Hvernig getum við laðað æskilegu ferðamennina að, ef við viljum á annað borð fara þá leið? Eru til óæskilegir hópar ferðamanna út frá hagsmunum íslenskrar þjóðar og íslenskrar náttúru? Ef svo, er hvernig höldum við þeim fjarri? Er það yfir höfuð hægt?

Þegar þessar spurningar vakna og eru ræddar er óhjákvæmilegt að líta til þess hvaða hlutverki ríkisfyrirtækið Isavia gegnir hér. Það er nauðsynlegt í þessu tilliti, og flestu öðru sem viðkemur íslenskri ferðaþjónustu reyndar, að stefna Isavia í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar sé í samræmi við stefnu eiganda vallarins, ríkisins, um það hvaða markaðssvæði við viljum leggja áherslu á. Ég held ég fari rétt með þegar ég segi að eins og staðan er í dag þá á ráðherra ferðamála ekki fulltrúa í stjórn Isavia. Og þið fyrirgefið, herra forseti, þetta er galið. Það hlýtur að mega gera þá kröfu til stjórnvalda að þau tryggi að hér sé gengið í takt.