149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[17:23]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil hefja ræðuna á því að þakka hæstv. ferðamálaráðherra fyrir skýrslu um þolmörk ferðaþjónustunnar á Íslandi. Eftir að hafa lesið yfir mjög ítarlega og langa skýrslu um þolmörk í ferðaþjónustu sá ég fljótt að rannsóknir og gögn takmarka niðurstöðu skýrslunnar. Það eru til gögn um helstu staði og þolmarkakannanir eru í þá átt að vera í réttari tengslum við þá staði, en svo eru göt í skýrslunni þar sem vantar upplýsingar um könnun á þolmörkum, sérstaklega á Austurlandi. Ég fagna því þó að þessi vinna sé farin af stað því ég tel hana afar brýna fyrir framþróun í ferðaþjónustu á Íslandi.

Það jákvæða í skýrslunni er að þolmörkum er hvergi nærri náð á fjölmörgum ferðamannastöðum á Íslandi. Það eru ýmsar leiðir til að stýra dreifingu betur og minnka álag á völdum stöðum og það er hægt að bæta aðgengi og aðstöðu á vinsælum stöðum, auka stuðning við nýsköpun og skapa áhugaverða ferðamannastaði og síðast en ekki síst að kynna nýja staði sem eru lítt þekktir um allt land.

Það er klárt mál að kynningu á nýjum svæðum er ábótavant og auka þarf stuðning við nýsköpun á ýmsum sviðum sem tengjast ferðaþjónustu og þeim viðfangsefnum sem greinin glímir við. Mikilvægast er að hlutverk t.d. Nýsköpunarmiðstöðvar um allt land sé virkt og má í því samhengi nefna að enginn starfsmaður er staðsettur á vegum stofnunarinnar á landsvæðinu frá Akureyri til Vestmannaeyja. Nú er unnið að nýsköpunarstefnu sem ég bind miklar væntingar við. Mikilvægt er að horfa til landsbyggðarinnar, bæði í mótun stefnunnar sem og innleiðingar hennar.

Í dag er markaðssetning ekki á höndum svæðanna fyrir utan einstaka eyrnamerkt verkefni, t.d. í tengslum við flugþróunarsjóð. Markaðssetning Íslands er því keyrð í gegnum ýmiss konar landsátök eins og Ísland allt árið sem er stýrt að helmingi af stóru ferðaþjónustufyrirtækjunum í Reykjavík.

Sterkt dæmi um mjög vinsælan áfangastað á Íslandi er Seyðisfjörður, einn allra vinsælasti ferðamannastaður Austurlands. Þar sem ég hef unnið við markaðssetningu ferðamannastaða síðustu fimm ár þá hef ég talað við fjöldann allan af gestum og því miður oft þurft að hlusta á upplifanir sem voru ekki nægilega góðar.

Hér er ein saga sem gæti verið sönn um gest sem er á leið austur á land með flugi til Keflavíkur. Hún ætlar svo áfram með innanlandsflugi til Egilsstaða. Viðkomandi gestur flokkast undir einn af markhópum Íslands sem greindir hafa verið af Íslandsstofu. Markhópurinn kallast lífsglaði heimsborgarinn. Hann er skapandi, hann er úthverfur, hann langar til að upplifa framandi náttúru án þess að setja sig í hættu. Hann sækir Ísland heim gjarnan yfir vetrartímann og hann er duglegur að deila upplifun sinni á netinu á meðan á dvöl stendur og eftir að dvöl lýkur. Ímyndum okkur frásögn þessa gests:

Guð, ég er búin að hlakka svo mikið til að fara til Íslands í ferðalag. Ég er ein á ferð. Ég ætla að hlaða batteríin, nánar tiltekið á Austurlandi, á Seyðisfirði. Ég hef lesið fjölmargar greinar um menninguna, góða sushi-ið og ekki síst mannlífið á Seyðisfirði.

Ég lendi í Keflavík en ég finn hvergi nokkurs staðar hvernig ég á að komast á innanlandsflugvöllinn. Ég labba um allt og allt í einu stoppar maður mig og spyr hvað ég sé að leita eftir. Jú, ég er að leita að terminalinu til þess að flytja mig austur á Egilsstaði. „Það er ekki hér, þú verður að fara til Reykjavíkur fyrir það.“ — Ég finn reyndar engar merkingar um það. „Nei, þú ferð bara í rútu og þetta er ekkert mál.“

Ég sest upp í rútuna og held af stað, mjög fín rúta með wi-fi og öllu. Svo stoppar rútan á stað sem heitir BSÍ. Ég veit ekki alveg hvað það þýðir og sný mér svolítið í hringi og klóra mér í hausnum og skil ekki hvað ég á að gera næst. Ég fer út og reyni að finna hvar ég á að tékka mig inn. En loksins fæ ég þau skilaboð, komin á annan stað og er mjög ringluð, að ég sé ekki á réttum stað. Ég verði að fara annaðhvort með leigubíl eða labba 1,4 kílómetra á innanlandsflugvöllinn. Ég er mjög hissa og orðin frekar pirruð. Ég enda með því að borga það sama og ég borgaði í rútuna til að fara með leigubíl því að umferðin er gífurleg á þessum tíma. Þegar ég loks kem á flugvöllinn þá virkar lásinn ekki á salerninu og það er rusl út um allt. Ég reyni að hugsa jákvætt og bíð spennt eftir fluginu til Egilsstaða.

Flugferðin gengur mjög vel og ég næ í bíl við lendingu eftir mjög gott flug og þar byrjar mitt aðalferðalag, ferðin til Seyðisfjarðar. Það er októbermánuður og ég hlakka mikið til. Ég finn að veðrið er aðeins farið að versna, en ég held samt áfram og hugsa: Það getur ekkert gerst, það er nú bara október og Ísland er svo stór ferðamannastaður að það getur ómögulega verið að ég lendi í einhverju klandri. En því miður festist ég uppi á Fjarðarheiði. Ég veit ekkert hvað ég á að gera, en það endar svo á því að „lókal“ maður hringir í björgunarsveitarmennina. Þeir eru mjög yndislegir og segja mér að þetta gerist allt of oft. Ég skil ekki neitt. Ísland, þetta vinsæla ferðamannaland, á þetta virkilega að vera svona? Ég næ á Seyðisfjörð næsta dag og á frábæra daga þar, en er þó með kvíðahnút í maganum allan tímann fyrir heimförina. Ég get því miður ekki mælt með þessum áfangastað fyrir vini mína, a.m.k. ekki að vetri til.

Virðulegi forseti. Umferðarþunginn er mikill yfir Fjarðarheiði og enginn þéttbýlisstaður með viðlíka umferðarþunga hefur beðið jafn lengi eftir varanlegum, öruggum heilsárssamgöngum. Slæm upplifun ferðamanna mun gera það að verkum að aðdráttarafl áfangastaðar með tilliti til öryggis fellur og engar líkur eru á að gesturinn muni mæla með staðnum til framtíðar.

Við skulum hafa það í huga að ef stjórnvöld fara ekki að taka þessu alvarlega að dreifa eigi ferðamönnum og skapa eigi góðar minningar þá endar þetta ekki vel. Það eru mörg svæði sem eru ekki ásetin ferðamönnum. (Forseti hringir.) Við skulum einnig hafa það í huga að markaðssetning Íslands eftir fjármálahrunið gaf af sér heilmikla umferð á suðvesturhorninu. Nú er kominn tími til að hugsa út fyrir hringinn. (Forseti hringir.) Ég veit að hæstv. ráðherra er sammála mér í því.