149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[17:32]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu skýrslu og tækifærið fyrir að fá að taka þátt í umræðu um hana. Ferðaþjónustan hefur sannarlega verið sá póstur sem mestu hefur munað um við það að koma Íslandi aftur á réttan kjöl eftir þær hörmungar sem riðu yfir landið fyrir 10 árum síðan. Ég stenst ekki þá freistingu að rifja upp og fara aðeins lengra aftur í tímann.

Þegar sum okkar töluðu um að ekki væri ráðlegt að stóla um of á rótgróna atvinnuvegi og stóriðju var gert grín að okkur. Fullyrðingar á borð við „ekki lifum við á óspilltri náttúrunni“ og hin margspurða spurning „hvað er þetta eitthvað annað?“ dundu yfir okkur. Við vorum kölluð lopapeysulið og fjallagrasaætur af ákveðnum hópi. Hugmyndir um að óspillt náttúra væri ekkert annað en vannýtt náttúra glumdi í eyrum okkar sem vildum vernda náttúruna. Auðvitað höfðum við rétt fyrir okkur eins og svo oft áður. Það var náttúran sem dró ferðamennina hingað. Eyjafjallajökull tók síðan að sér auglýsingastörf.

Nú er staðan orðin þannig að ferðaþjónustan er orðin stærsta atvinnugrein landsins og ágangur ferðamanna er orðinn ein helsta ógn við náttúru þess.

Það er ekki nokkur vafi á því að hin óspillta náttúra er helsta aðdráttarafl landsins. Við verðum því að finna leiðir til að vernda þá staði sem eru undir mestu álaginu og vekja athygli á þeim stöðum sem geta sannarlega tekið á móti fleiri ferðamönnum. Á meðan sum svæði eru að kikna undan ferðamannastraumi eru önnur svæði nánast alveg köld og þola mun fleiri ferðamenn. Um leið og við takmörkum þann fjölda ferðamanna sem við hleypum inn á þau svæði sem eru komin að þolmörkum verðum við að auglýsa aðra staði upp og auðvelda aðgengi að þeim.

Þessar hugmyndir birtast allar í skýrslu hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Mikilvægt er að við nýtum okkur rannsóknir á þessum málum og bregðumst við. Í einhverjum tilfellum getur verið nauðsynlegt að loka svæðum og gefa þeim færi á að jafna sig. Mér líst vel á hugmyndirnar um að rannsóknir á þessu sviði verði nýttar til að taka ákvarðanir, bæði fyrir einstök svæði og heilu landshlutana.

Nú virðist ferðaþjónustan vera að breytast. Ferðamenn dvelja skemur á landinu og það hefur nú þegar haft slæmar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuaðila, einkum þá sem búa fjarri Keflavík, sem er langstærsta hliðið inn til landsins. Mig grunar að hátt verðlag á innanlandsflugi sé töluverð hindrun í dreifingu ferðamanna um landið. Það er mikilvægt að hægt sé að bjóða upp á tengiflug frá Keflavík til flugvalla á landsbyggðinni og enn frekar að greiða fyrir því að fjölga hliðunum inn í landið. Því miður hafa tilraunir í þá átt ekki skilað nægilega góðum árangri. Ég bind vonir við að vinna við áfangastaðaáætlanir landshlutanna geti greitt fyrir því að flugvellir á borð við Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll verði samkeppnishæfir.

Álagið er langmest á Suðurlandið og Suðvesturlandið, eins og komið hefur fram. En flest önnur landsvæði geta hæglega tekið á móti mun fleiri ferðamönnum en þau gera nú.

Eitt helsta vandamál þeirra sem reka ferðaþjónustufyrirtæki fjarri Keflavík eru árstíðasveiflurnar. Það er gríðarlega erfitt fyrir fyrirtæki að fara í fjárfestingar þegar nýtingin er nánast öll yfir sumarmánuðina. Þetta heftir mjög uppbyggingu gistirýma og fólk veigrar sér við að fjárfesta í tækjum sem aðeins eru notuð í fjóra mánuði á ári. Þessi fyrirtæki þurfa stuðning. Væri ekki ráð að styrkja enn frekar átak í að auglýsa upp fáfarnari staði? Litlu þorpin um allt land eru heillandi áfangastaðir fyrir hina fjölmörgu ferðamenn sem vilja komast burt úr ys og þys borganna sem þeir eyða mestum hluta ævi sinnar í.

Reykjavík er sannarlega heillandi ferðamannastaður enda er miðborgin nú þegar undir miklu álagi. Þessi miklu fjöldi ferðamanna reynir á þolmörk íbúa miðborgarinnar og ferðamennirnir vilja líklega hitta heimamenn ekki síður en aðra ferðamenn.

Ég fagna skýrslu hæstv. ráðherra og er sannfærð um að með því að byggja á vísindalegri þekkingu og vísindalegum rannsóknum er hægt að vernda þá staði sem verða fyrir miklum ágangi og fá ferðamenn til að dreifa sér betur um landið.