149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[17:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Undanfarin ár hefur verið gegndarlaus aukning ferðamanna á Íslandi án tillits til þolmarka en í skýrslunni, sem er mjög góð byrjun á því sem vantar, er einmitt fjallað dálítið um þau þolmörk. Fjallað er sérstaklega um að vinna við þolmarkagreiningu hafi ekki farið fram á Íslandi og er yfirferðin í þeim kafla mjög áhugaverð. Farið er yfir sögu hugtaksins um þolmörk, hvernig taka eigi tillit til þolmarka náttúru, þolmarka innviða, efnahagslegra þolmarka sem og félagslegra. Það endar á niðurstöðu um skilgreiningu þolmarka fyrir Ísland, ef ég skil skýrsluna og þann kafla rétt, með leyfi forseta, sem „sá fjöldi gesta sem svæði getur tekið á móti áður en neikvæðra áhrifa fer að gæta, hvort heldur er náttúrulegt umhverfi, upplifun ferðamanna eða viðhorf heimamanna.“

Það er nefnilega fjallað um hvaða þátt eigi að setja í fyrsta sæti, hvort setja eigi náttúruna í fyrsta sæti eða ferðamennskuna eða hvort miða eigi við veikasta hlekkinn. Niðurstaðan virðist vera að um leið og neikvæðra áhrifa fari að gæta á einhverjum stað eigi að taka tillit til þess. Það getur því verið mismunandi eftir stöðum hvað brestur fyrst, náttúran, upplifunin, ferðamennskan á annan hátt eða annað.

Það sem ég sakna í yfirferðinni um álag á hina ýmsu ferðastaði er að mjög fjölsótta ferðastaði vantar inn í upptalninguna, eins og áður var talað um, t.d. Fjaðrárgljúfur og Kirkjufell. Það þyrfti greiningu eða lista yfir slíka staði, a.m.k. yfir þá staði þar sem eru landverðir.

Einnig er fjallað örstutt í skýrslunni um almannaréttinn og yfirferð á endurskoðun á almannarétti. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta, á bls. 63:

„Jafnframt hefðu komið fram þau sjónarmið að lögaðilar ættu ekki að geta fénýtt þennan rétt almennings á kostnað annarra og að ljóst væri að einhvers konar stýring á umferð ferðamanna væri nauðsynleg sem hluti af heildarskipulagi ferðaþjónustu í landinu.“

Ég tek undir það sjónarmið að ekki eigi að taka rétt almennings til almannaréttarins vegna þess að það er svo mikið af ferðamönnum sem koma í veg fyrir að hægt sé að nýta hann.

Mig langar til að bera okkur saman við tvö önnur lönd sem eru svipuð að stærð og Ísland, sem eru Gvatemala og Suður-Kórea. Til þeirra landa fara mun fleiri ferðamenn heldur en til Íslands. Þrátt fyrir að þau lönd séu landfræðilega svipað stór og Ísland eru þau fjölmennari og hafa því sterkari innviði að einhverju leyti. Fjöldi ferðamanna í þeim löndum er slíkur miðað við fjölda ferðamanna á Íslandi að landfræðilega séð ættum við að geta tekið á móti miklu fleiri ferðamönnum. Innviðir okkar eru hins vegar ekki burðugir til þess, eins og hefur berlega komið í ljós varðandi þolmörk samgöngukerfisins.

Að lokum langar mig að minna á stefnu Pírata um að deila hluta af virðisaukaskattinum með nágrannasveitarfélögum. Það þýðir að þegar ferðamenn fara á staðinn, fara í búðina og kaupa mjólk eða kaupa norðurljósaferð á Reykjanes eða eitthvað svoleiðis, fær nærsamfélagið hlutdeild af þeirri ferðamennsku og viðskiptum. (Forseti hringir.)

Ég hlakka til framhaldsins. Skýrslan er mjög vel gerð að mínu mati og mjög góð byrjun.