149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[17:55]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ferðamennska hefur verið sívaxandi atvinnugrein hér á landi undanfarin ár og skilað þjóðarbúinu miklum tekjum, það miklum að hún telst nú stærsta atvinnugreinin. Það hefur ýmislegt bæði gott og verra í för með sér og líka hefur ýmislegt bæði gott og vont verið sagt um ferðaþjónustuna hér á landi, sem er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þegar ný atvinnugrein vex eins hratt og raun ber vitni. Hins vegar ber þess líka að geta að fjölmargir einstaklingar víða úti um landið hafa lagt í mikinn kostnað af metnaði, djörfung og dug við að byggja upp fyrirtæki og aðstöðu til þess að þjónusta alla þá ferðamenn sem hingað sækja.

Í skýrslunni sem er til umræðu kemur skýrt fram að farið er að reyna verulega á þolmörk á suðvesturhorninu og Suðurlandi, bæði hvað varðar ástand náttúrunnar og félagsleg þolmörk íbúa gagnvart atvinnugreininni. Þegar við lítum til annarra landshluta kemur eftirfarandi fram í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Á Vesturlandi er nokkuð góð staða en ástand náttúru er þó slæmt á nokkrum stöðum. Íbúar vilja gjarnan fá fleiri ferðamenn í landshlutann, sérstaklega á veturna.

Á Vestfjörðum er ástand náttúru ábótavant á nokkrum stöðum en almenn ánægja mælist meðal ferðamanna og heimamanna. Meiri hluta íbúa finnst ekki æskilegt að auka ferðaþjónustufjöldann á sumrin en er opnari fyrir því að vetri.

Á Norðurlandi eru viðhorf ferðamanna og íbúa almennt jákvæð en þó mismunandi eftir svæðum. Siglufjörður og Húsavík eru dæmi um ferðamannastaði sem blómstra, en greinileg viðvörunarmerki eru í Mývatnssveit vegna álags á náttúru og innviði.

Á Austurlandi virðist vera gott ástand. Íbúar eru jákvæðir og bjartsýnir en finna má staðbundna álagspunkta, t.d. Helgustaðanámu.“

Það sem er sammerkt með þeim umsögnum og umsögnum víðar í skýrslunni er að úti um landið óskar fólk eftir því að sá tími sem ferðamenn sækja staðina heim sé frekar og í meira mæli að vetri.

Ég vil beina sjónum sérstaklega að Norðausturlandi, Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, og Austfjörðum. Þar eru víða dýrmætar og miklar náttúruperlur, áhugaverðir staðir og bæjarfélög, uppbygging á þjónustu og afþreyingu, hótelum, gististöðum, spennandi veitingastöðum, forvitnilegum söfnum, hvalaskoðunum, veiði og skíðaaðstöðu auk þess sem nefna má fyrirtæki með bjórböð, jarðböð og sjóböð sem nýja og heilsusamlega og spennandi afþreyingu.

Á þeim svæðum landsins er ekki komið að þolmörkum og nýting gæti verið enn betri. Það er óhagræði og vont fyrir fyrirtæki í ferðaiðnaði hvar sem er á landi hvað nýtingartíminn er stuttur, að mestu frá júní og fram í september, en hann hefur þó verið að lengjast og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi.

Ég tel þjóðhagslega hagkvæmt og mikilvægt byggðamál að beina ferðamönnum í auknum mæli jafnar út um landið og betur yfir árið. Með því getum við komið í veg fyrir ofbeit á einstökum landsvæðum.

Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða á undanförnum með það að markmiði að dreifa umferð ferðamanna betur yfir árið og um landið, m.a. með markaðsherferðinni Ísland allt árið. En það þarf markvissa stýringu á fjölda, aðgengi og dreifingu ferðamanna til framtíðar til að koma í veg fyrir að þolmörkum sé ógnað á sumum svæðum landsins og önnur verði útundan í hinni mikilvægu atvinnuuppbyggingu á landsvísu.