149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[18:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa skýrslu, hún er mjög góð vísbending um það sem við þurfum að gera. Hún er gott fyrsta skref í því að við áttum okkur betur á því hvað við þurfum að gera til framtíðar. Víða eru grunnstoðir okkar komnar að þolmörkum, þ.e. vegakerfið, heilbrigðiskerfið, löggæslan, flugvellirnir. Þarna þarf massífa og markvissa uppbyggingu og náttúran er líka komin að þolmörkum víða á Suðurlandi og á ýmsum stöðum norðanlands.

Það vill svo til að ég hitti um daginn ágæta konu sem rekur ferðaskrifstofu í Englandi, flytur hingað góða ferðamenn, þ.e. góða ferðamenn í því ljósi að þeir eru vel borgandi, eru vel menntaðir, ganga vel um. Hún sagði við mig: Það er ekkert að því að Ísland sé uppselt, það er ekkert að því að einhverjir staðir á Íslandi séu uppseldir og ekki sé fleirum hleypt að.

Ef ég ætti t.d. að nefna dæmi um slíkt þá eru það Landmannalaugar, en maður þarf eiginlega áfallahjálp eftir að hafa farið þangað eins og ástandið þar er núna. Það er ekki að furða að þolinmæði Íslendinga sé víða á þrotum þegar þeir sjá merki um skefjalausan utanvegaakstur og ýmislegt sem fylgir þessum massatúrisma sem við höfum verið að reyna að byggja upp núna undanfarið. Margir ferðaþjónustuaðilar virðast hafa litið á þessa snöggu uppsveiflu sem einhvers konar loðnuvertíð og eru til í að henda öllu í bræðslu en ekki frystingu. Það virðist líka vera að margir sem reka ferðaþjónustu séu með það markmið að ferðamaðurinn sem kemur hér inn komi aldrei aftur, hann sé fældur í burtu með okri og taumlausri græðgi. Það er önnur saga. Við getum kannski lært af því.

Við þurfum að vera opnari fyrir því að læra af öðrum. Ég nefni t.d. lönd eins og Þýskaland og Ameríku. Í Suður-Þýskalandi hefur t.d. verið rekin ferðaþjónusta á mjög viðkvæmum svæðum í 100 ár. Við getum lært af því hvernig þeir hafa gengið fram. Ég myndi t.d. þora að veðja að ef Laugavegurinn, þ.e. gönguleiðin, væri í Þýskalandi væri fólki ekki hleypt á þá slóð nema undir eftirliti leiðsögumanns. Ég er alveg með það á hreinu. Það er ýmislegt svona sem við þurfum að aðgæta. Við þurfum líka að aðgæta það að grípa inn í og herða reglur sem við getum gripið inn í ef þörf krefur.

Ég viðurkenni það sjálfur að það hefur farið alveg gríðarlega undir skinnið á mér og í taugarnar á mér að það skuli fara hér skemmtiferðaskip um landið og lauma hópum farþega inn í friðland Hornstranda og við gerum ekki neitt. Þetta er náttúrlega, herra forseti, skömm, skandall. Auðvitað eigum við að koma í veg fyrir að menn fari á bak við reglur og verði til þess að náttúruperlur séu troðnar niður. Það er óþolandi.

Það sem náttúrlega tekur meira á hér en annars væri er að ferðamál heyra undir allt of mörg ráðuneyti. Annaðhvort þarf að stórefla samvinnu milli þeirra ráðuneyta sem þessi málaflokkur heyrir til eða hreinlega að efla ferðamálaráðuneytið, sem betur fer er það komið á laggirnar, til þess að við getum komið í veg fyrir það að við verðum fyrir tjóni sem verður ekki bætt í framtíðinni.

Þess vegna segi ég það: Skýrslan er góður vegvísir, en við skulum líka nota hana og ganga eins langt og við þurfum til þess að ekki fari illa hjá okkur.