149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[18:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á því eins og margir aðrir að þakka fyrir skýrsluna og þá vinnu sem var lögð í hana og einnig fyrir góða og fræðandi umræðu hér. Mjög margt hefur komið fram og við sem síðast komum sitjum eftir með svolítið bland í poka, en það er samt sem áður af nógu að taka. Þetta er áhugaverð skýrsla og ýmislegt um hana að segja.

Í skýrslunni er tekið á málefni sem mér hefur fundist sitja mjög lengi á hakanum. Ferðamennskan er atvinnugrein sem kom okkur upp úr efnahagslegu hruni og mér hefur fundist vera farið frekar illa með þá gullgæs okkar og ekki hlúð að henni sem skyldi.

Þó að skýrslan sé um margt mjög góð finnst mér inngangur hennar nokkuð lýsandi fyrir viðhorf Íslendinga til ferðamennsku, en í honum kemur fram á bls. 2, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að kanna hvort náttúra landsins, sem er meginaðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar, kunni að vera í hættu vegna of mikils átroðnings eða skorti á viðeigandi aðstöðu til að taka á móti ferðafólki.“

Talað er um að nauðsynlegt sé að kanna hvort einhver hætta steðji að náttúru landsins. Ég hefði haldið að allir þekktu það. Vikið er að því á öðrum stöðum í skýrslunni að vitað sé að mjög mikill átroðningur sé á ýmsum stöðum og náttúrunni steðji ógn af því. Mér finnst það lýsandi að við teljum okkur aðeins þurfa að skoða hvort landið okkar verði fyrir of miklum átroðningi. Þrátt fyrir að við höfum orðið vitni að gríðarlegri fjölgun ferðamanna frá árinu 2011 höfum við ekki komist að neinni niðurstöðu né ráðist í neinar virkilega sannfærandi aðgerðir til að vernda náttúruna fyrir ágangi ferðamanna eða til þess að byggja upp innviðina sem þarf til að geta tekið á móti jafn mörgum ferðamönnum. Við Íslendingar erum að verða 330 þúsund og þær næstum 3 milljónir ferðamanna sem hingað koma reyna talsvert á innviði okkar, hvort sem það eru vegir eða annað.

Þetta er eitt lítið dæmi um það sem mér finnst lýsandi fyrir viðhorf okkar. Við erum enn þá að skoða þá hluti sjö árum eftir að gríðarleg fjölgun fór í gang. Mér finnst vera kominn tími til aðgerða og tek undir það með fleiri hv. þingmönnum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að fá fleiri ráðherra í lið með sér til að taka á málinu, bæði varðandi umhverfið en einnig uppbyggingu innviða. Þótt nóg sé komið af starfshópum mætti alveg skipa starfshóp ráðherra í þeim efnum.

Mér leist mjög vel á það sem hæstv. ráðherra minntist á í framsöguræðunni um litlu Hafró. Mér finnst við einmitt hafa ágætisfyrirmynd að því hvernig við förum með þá mikilvægu auðlind. Ég held að gríðarlega mikilvægt væri að hafa góða yfirsýn, því að eins og hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir kom inn á í ræðu sinni vantar upplýsingar og samræmdar aðgerðir. Komið er vel inn á það í skýrslunni.

Eitt sem mig langar líka að minnast á sem mér hefur fundist vanta í umræðuna um félagsleg og efnahagsleg áhrif ferðamennsku er að sjálfsögðu félagslegt undirboð í ferðamennsku og misnotkun á erlendu vinnuafli. Mér hefur ekki fundist það vera rætt í umræðunni og ég sé þess ekki almennilega stað í skýrslunni heldur. Mér finnst mikilvægt að við hugsum um að verið er að misnota erlent verkafólk á mjög óvæginn hátt í ferðamannaiðnaðinum. Við verðum að vera vakandi fyrir því. Það skekkir líka samkeppnisstöðu fyrirtækja í ferðaiðnaði.

Síðan myndi ég vilja bæta við hugsunum um hagsmuna- eða neytendavernd erlendra ferðamanna vegna þess að mér blöskrar stundum hvað fólki leyfist að okra á ferðamönnum hér á landi. Ég hugsa að það geti dregið úr sjálfbærni atvinnugreinarinnar. (Forseti hringir.) Þegar fólk er komið með upp í kok af því að borga 500 kr. fyrir vatnsflöskuna hættir það mögulega að koma hingað. Við ættum að skoða það alvarlega.