149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[18:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka kærlega fyrir þessa skýrslu sem hér er fram komin og þakka hæstv. ráðherra fyrir að fylgja henni úr hlaði. Það er mikilvægt að við fáum að taka þessa umræðu.

Ég velti þó fyrir mér hvort við séum aðeins að gleyma okkur í því atriði að það vanti alls konar upplýsingar. Hér finnst mér margir þingmenn hafa talað eins og ekkert hafi verið gert í ferðaþjónustunni eða í því að skipuleggja ferðaþjónustuna, þessa mikilvægu atvinnugrein. Mig langar í þeim efnum að minnast aðeins á skýrsluna Framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi til ársins 2030,sem er ágætis sviðsmynda- og áhættugreining sem unnin var fyrir Stjórnstöð ferðamála sem er einmitt einhvers konar ráðherranefnd og fagaðilar í því hvernig við viljum þróa þessa atvinnugrein áfram. Ég hygg nefnilega að við höfum gert ýmislegt mjög vel þegar kemur að þessari atvinnugrein en án efa væri hægt að gera margt betur.

Þessi skýrsla fjallar í mínum huga svolítið um það hvort Ísland sé uppselt. Svar mitt við því er að Ísland sé ekki uppselt, en ég get tekið undir með mörgum hv. þingmönnum sem hér hafa talað og m.a. hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni sem nefndi t.d. Landmannalaugar. Það kemur ágætlega fram í skýrslunni að þar er þolmörkum náð. Mér var mjög brugðið þegar ég heimsótti síðast Landmannalaugar. Ég veit reyndar ekki hvort það sé raunhæft að fá leiðsögumann í hvert skipti sem maður labbar Laugaveginn, ég hef til að mynda hlaupið hann og ég veit ekki hvort margir væru tilbúnir að hlaupa það sem leiðsögumenn.

Víða má örugglega gera betur í þessum málum og þá held ég að við séum náttúrlega fyrst og fremst að horfa á það að við þurfum einhvers konar aðgangsstýringu. Þegar við horfum á fyrirtæki sem hafa náð hvað mestum árangri í ferðaþjónustu þá vil ég nefna fyrirtæki eins og Bláa lónið sem er með mjög skýra aðgangsstýringu inn í lónið.

Ég held að við þurfum að fara að huga að því af einhverri alvöru að stýra fólki í auknum mæli inn á allra vinsælustu ferðamannastaðina. Þá kemur að því sem við höfum lengi rætt hér, það er dreifing ferðamanna. Fyrst snerist það um áherslur okkar um Ísland allt árið, að lengja ferðamannatímann, og það hefur vissulega tekist. Hér eru ekki bara ferðamenn á sumrin, heldur koma þeir líka á veturna og yfir allt árið. En kannski hefur okkur ekki tekist alveg jafn vel upp þegar kemur að því að dreifa þeim um landið. Ég veit reyndar ekki hversu raunhæft það er að ætla hæstv. ráðherra eða einhverjum öðrum að dreifa ferðamönnum tvist og bast um landið, en það má vissulega beita einhverjum markaðsaðgerðum í þeim efnum og þá sérstaklega í samstarfi við heimamenn, Markaðsstofu landshlutanna og annað þess háttar.

Mig langar á síðustu mínútunni að koma aðeins inn á það að við erum svolítið upptekin af hausatalningum þegar kemur að ferðamönnum. Ég veit ekki hvort það sé alltaf það skynsamlegasta í þessari mikilvægu atvinnugrein, við ættum frekar að skoða verðmætasköpunina sem verður til í greininni sem slíkri. Kannski er ekki fullkomlega raunhæft heldur að stýra því nákvæmlega hvers konar ferðamenn koma til landsins, en það er þó hægt að beita einhverjum aðgerðum eins og markaðstækjum og öðru þess háttar og ég held að við ættum að reyna að hvetja greinina áfram í þá áttina. Höfða frekar til ferðamanna sem eru tilbúnir að koma hingað og verja einhverjum fjármunum til að upplifa náttúruna en líka aðra afþreyingu. Þá er náttúrlega auðvelt að horfa til hvataferða, ráðstefnuhalds og annars og almennt skilur þessi geiri innan ferðaþjónustunnar meira eftir sig í verðmætasköpun í hverju landi fyrir sig.

Á síðustu sekúndunum vil ég minnast á skemmtiferðaskipin. Það er komið inn á þau í skýrslunni og mig langar að taka undir það sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kom inn á varðandi þann þátt. Ég held reyndar að það hafi verið tekið á því þegar sá hræðilegi atburður (Forseti hringir.) átti sér stað að skemmtiferðaskip hleypti ferðamönnum inn á friðlandið okkar. Það verður auðvitað að taka fyrir slíkt og ég velti fyrir mér hversu mikið við erum að fá út úr þess háttar ferðamennsku (Forseti hringir.) og hvar við eigum að draga mörkin í þeim efnum. Þá held ég að við verðum sérstaklega að horfa (Forseti hringir.) til mikilvægis hafsvæðisins milli vestnorrænu landanna og á Norðurslóðasvæðinu öllu.